146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er svolítið sniðið að sænskri norrænni fyrirmynd. Það skyldi nú ekki vera að þar sjáist þess stað að stjórnmálahefðir og vinnubrögð eru talsvert með öðrum hætti, t.d. í því ágæta landi Svíþjóð. Þar er „konsensus“-pólitík, samstöðustjórnmál, miklu meira ástunduð en hér. Það er ekki tilviljun að þessar áætlanir eru til fimm ára en ekki fjögurra, ekki bara kjörtímabil. Ef við hugsum okkur að það væri í grunninn nokkuð góð sátt um fjármálastefnuna og jafnvel fjármálaáætlunina — svo gætu menn tekist á um útfærslur í einstökum þáttum — þá væru ekki þessi vandamál uppi við stjórnarskipti. En þessi lögbundni farvegur núna, ég var að hugsa einmitt um það áðan, er orðinn svo knosaður að það er eiginlega enginn tími ársins sem er almennilega brúklegur til þess að skipta um ríkisstjórn því að það lendir alltaf einhvers staðar inni í ferli þannig að þetta er í tómum vandræðum. Það er í alvöru þannig. Það er ekki gott að gera það um áramót. Það er að sjálfsögðu ekki gott að gera það að vori. Og það er ekki gott að gera það heldur að hausti. (Forseti hringir.) Með þessu er ég ekki að segja að núverandi ríkisstjórn eigi að sitja um aldur og ævi, það er ekki svo, en þetta (Forseti hringir.) er umhugsunarefni. Punkturinn er sem sagt þessi að þeim mun (Forseti hringir.) meiri samstaða sem væri um grunninn, þeim mun minna vandamál væri þetta.