146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:56]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, ekki síst vegna þess að ég stóð sjálfan mig að því í andsvörum við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon áðan að tala í rauninni um fjórðu afleiðu hagkerfisins um minnkun á aukningu á vergri landsframleiðslu. Eftir það fór ég að hugsa: Hvers vegna erum við að tala um þetta svona rosalega abstrakt? Af hverju erum við ekki að tala um heimspekina sem liggur þessu til grundvallar? Þetta er stefna sem við erum að ræða, fjármálastefna, ekki áætlun, ekki töluleg nálgun, heldur heimspekileg nálgun um það hvernig við eigum að stýra samfélagi.

Efnahagsleg sjálfbærni er einmitt eitt þeirra atriða sem við ættum að vera að tala um og getum sett það í samhengi við ýmiss konar heimspekilegar stefnur svo sem … samvinnustefnu 1830, við gætum verið að spyrja okkur um skorthagkerfi sem við höfum eiginlega gert ráð fyrir frá iðnbyltingu, að ekki sé til nóg af neinu til þess að allir geti fengið að vera með þannig að auðvitað þurfa einhverjir að fá að tróna ofar öðrum eins og hv. þingmaður talaði um.

Mig langar að spyrja svolítið út í hvernig þessar hugmyndir um hámark á vergri landsframleiðslu sem hlutfallsleg útgjöld ríkisins geta passað inn í umhverfi þar sem sjálfvirknivæðing er að aukast stöðugt, þar sem kröfur okkar um hreint umhverfi eru að aukast stöðugt, þar sem vöxtur hagkerfisins er í auknum mæli tengdur við þær mannlegu framfarir, tækniframfarir og framfarir á öllum sviðum vísindanna sem við sjáum á hverjum einasta degi. Þessi framsækni kapítalismi sem einhverjir hafa verið að tala um hefur aldrei gefið okkur neitt nema skattaskjól og auðhringi og hefur ekki sinnt þessum málum neitt rosalega vel.