146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eins og ég kom að í ræðu minni um þetta mál er ég þeirrar skoðunar að sökum þess að þetta er ný aðferðafræði við að ákveða fjárlög ríkisins, sökum þess að hér er verið að reyna að setja langtímastefnu fram í tímann, en við erum vissulega enn að innleiða þetta ferli, sé Alþingi ekki búið að átta sig nægjanlega vel á hlutverki sínu. Hér er verið að ræða líklega mikilvægasta málið sem þessi ríkisstjórn mun leggja fram á líftíma sínum, hver sem hann verður. Hér er verið að setja stefnuna til fimm ára um útgjöld ríkisins og verið að sníða framhaldinu afskaplega þröngan stakk. Það er verið að sníða velferðarkerfinu, menntakerfinu, kjörum lægst launuðu hópanna, öryrkja og aldraðra, afskaplega þröngan stakk. Þetta er stóra málið. Að sjálfsögðu undrast maður hversu lítinn þátt (Forseti hringir.) stjórnarliðar hafa tekið í þessari umræðu, herra forseti.