146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:05]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er frekar leiðinlegt að ana hér áfram í myrkrinu. Ég ítreka þá beiðni mína að fá hv. ráðherra samgöngumála, heilbrigðismála og félagsmála í hús. Það er svolítið skrýtið að við skulum vera að reyna að tala um það sem er og á að vera heimspekilegt plagg, reyndar á það að vera en er ekki heimspekilegt plagg, sem markar stefnu ríkisstjórnarinnar og stefnu hennar í fjármálum ríkisins, en við fáum ekki að ræða neitt annað en einhverja töflu sem kemur fyrir á forsíðunni, eins og hún skipti höfuðmáli, svo einhverjar reglur, afkomureglu, skuldareglu og skuldalækkunarreglu. Þetta er bara leiðinlegt. Fyrir utan að það er engin framtíðarsýn í þessu. Mér leiðist að við getum ekki átt eðlilegt samtal um stjórnmálin og pólitíkina og hugmyndafræðina sem liggur þessu öllu til grundvallar. Ég er algjörlega sammála. Ég veit ekki hvort ég get svarað spurningu hv. þingmanns betur.