146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:18]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurningin sem út af stóð var um útgjaldaþakið, svo ég nái að minna hv. þingmann á það.

Hann kom inn á það í máli sínu að þetta væri hugmyndafræði kaldlyndrar nýfrjálshyggju. Mig langar að spyrja hann út í þann grunn sem þessi fjármálastefna byggist á. Hér ætla ég að leyfa mér að vitna í texta, með leyfi forseta:

„Þegar horft er til helstu úrlausnarefna á sviði hagstjórnar blasir við að vöxtur ferðaþjónustunnar, sem er orðin stærsta útflutningsgrein landsins með meira en þriðjung af útflutningstekjum, hefur verið gríðarlega hraður og kröftugur. Það hefur óhjákvæmilega talsverð ruðningsáhrif á aðrar atvinnugreinar, m.a. í samkeppni um vinnuafl og fjármagn. Haldi styrking krónunnar áfram, svo sem horfur eru á að óbreyttu, mun það leiða til frekari veikingar á samkeppnisstöðu annarra þjónustu- og útflutningsgreina og á endanum halla á viðskiptajöfnuði.“

Mig langar til að spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) út í þessa staðreynd og þær horfur og þennan grunn sem fjármálastefnan stendur á.