146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir með henni að hún þaut hjá eins og vindurinn, var allt of fljót að líða. Mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann um hluta af minnihlutaáliti samflokkskonu hv. þingmanns eða 4. minni hluta fjárlaganefndar, en þingmaðurinn vísaði töluvert í hann í ræðu sinni. Mig langar að lesa smáhluta úr þessu, með leyfi forseta, fyrir hv. þingmann, en þar stendur á 1. blaðsíðu:

„Þau afkomumarkmið sem A-hluta sveitarfélaganna eru sett í fjármálastefnunni eru að mati sambands þeirra óraunsæ. Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga til næsta árs eru að þeirra mati bindandi reglur um allar fjárhagslegar ráðstafanir af hálfu sveitarfélaganna. Fjórði minni hluti gagnrýnir að ríkisstjórnin þurfi að leita frekara samstarfs um þann talnagrunn sem afkomumarkmið sveitarfélaganna byggist á eftir að ríkisfjármálastefnan hefur verið lögð fram, en sveitarfélögin hafa vonast til að sú rýnivinna leiði til endurskoðunar á afkomumarkmiðum …“

Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að auðvitað væri æskilegt að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra væri hérna með okkur að ræða þetta, þ.e. af hverju það tókst svona illa til?