146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:23]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil vel það að þetta krefjist ákveðinnar athygli því hv. þingmaður sem hér stendur er oft kölluð Árnadóttir fyrir mistök þegar hv. þingmaður fer upp í ræðustól Alþingis.

Já, ég er hjartanlega sammála hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur að það hefði verið afar gott ef gert hefði verið hlé á þingfundi til að kalla þetta mál inn til hv. fjárlaganefndar til að ræða akkúrat þau atriði málsins sem við höfum verið að velta fyrir okkur hér í dag.

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann varðandi þakið sem sett er inn í fjármálastefnuna um að útgjöld ríkisins megi ekki fara yfir 41,5% af vergri landsframleiðslu, sérstaklega þegar maður veltir fyrir sér orðunum sem fram koma m.a. í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar um minni greiðsluþátttöku, uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngumálum og öllu því. Hefur hún ekki áhyggjur af því og er það kannski óábyrgt að setja þetta þak, því ef það verður dýfa í efnahagskerfi okkar hvernig á þá að bregðast við?