146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu sína og langar að reyna að velta upp einhverju jákvæðu í þessu samhengi vegna þess að það er búin að vera töluverð neikvæðni gagnvart þessari lélegu fjármálastefnu. Hv. þingmaður hefur eins og ég miklar áhyggjur af umhverfinu og vangetu ríkissjóðs og ríkisstjórnarinnar til þess að uppfylla ákvæði Parísarsamkomulagsins í ljósi þessarar fjármálastefnu. Ég deili þeim áhyggjum. Er ekki hægt að sjá einmitt að það vanti í þessa fjármálastefnu einhvers konar hugmyndafræðilega tilvísun í tækifæri sem Íslandi bjóðast í því að vera leiðandi í umhverfisvernd, m.a. með því að byggja upp grænt hagkerfi og stuðla að bættum efnahagslegum forsendum fyrir náttúruvernd?