146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:15]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með kollegum mínum. Það þýðir ekkert að vera með svona hentisemi. Jú, það er búið að vera mikið af sérstökum umræðum af því að ekki hafa verið nein önnur mál til að afgreiða frá ríkisstjórninni. Það hefur hentað forseta rosalega vel að setja sérstakar umræður á dagskrá. Núna þegar það hentar ekki, af því að ríkisstjórnin er allt í einu komin með fullt af málum, þá á að taka sérstakar umræður af dagskrá. Ég hélt að forseti ætti að vera forseti þingsins, ekki forseti ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur að þurfa að taka tillit til þess að fátækt er málefni sem brennur á okkur öllum. Fólk þjáist. Þetta snýst um líf og dauða. Börn þjást í samfélaginu og við eigum að ræða þetta núna. Þetta er mikilvægasta málið sem við getum rætt núna, sérstaklega með það í huga að við erum að fara að taka fyrir fjármálaáætlun og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Mér finnst þetta ekki boðlegt og mér finnst að forseti eigi að sýna það að hún er forseti þingsins, ekki forseti ríkisstjórnarinnar.