146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

lífræn ræktun.

253. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðum. Ég fagna viðbrögðum hæstv. ráðherra. Ég vil fyrst og fremst brýna hana til góðra verka. Ég vona í fyrsta lagi að afar skýr vilji komi fram við grunntóninn sem er í endurskoðun búvörusamnings, eða við þá vinnu sem fyrirhuguð er í þeim efnum, þ.e. að sjónarmið lífrænnar ræktunar njóti þar stuðnings. Ég vil jafnframt brýna ráðherrann í því — ég saknaði þess að heyra ekki þann tón skýrar í máli hennar — að horfa sérstaklega til loftslagssjónarmiðanna.

Mér er ljóst að verulegur möguleiki er á ávinningi að því er varðar markaðsmálin þar sem aukin eftirspurn er eftir matvöru af þessu tagi; það er í mínum huga hliðarafurð þó að hún sé afar mikilvæg. Það skiptir allra mestu máli til lengri framtíðar að allar þær breytingar sem við erum að gera á atvinnulífi okkar séu með loftslagsmarkmiðin til grundvallar. Allar okkar áætlanir þurfa að fela það í sér að allar aðgerðir séu beinlínis í þágu þess annaðhvort að binda meira kolefni eða að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég treysti því að það komi fram í síðara svari hjá hæstv. ráðherra að svo muni verða, þ.e. að við sammælumst um að horfa sérstaklega til þeirra tækifæra sem eru í landbúnaði, bæði með hefðbundnum hætti, þegar við erum að tala um það með hvaða orkugjöfum við knýjum áfram tæki o.s.frv. í þágu landbúnaðar, en ekki síður er varðar þessi sjónarmið í landbúnaðarræktun sérstaklega.