146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

stefna um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

227. mál
[17:21]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að svara spurningu hv. þm. Gunnars I. Guðmundssonar, ég mun leggja slíka áætlun fram í haust.

Ég tek undir með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni og Kolbeini Óttarssyni Proppé um að þetta er alveg rétt, þessa stefnu vantar. Í rauninni get ég líka tekið undir það að hún er í rauninni forsenda fyrir því að við vinnum síðan rammann. Það er pínu öfugsnúið með alla þessa orku og tímann sem fer í rammann og vera ekki með orkustefnu, af hverju þurfum við orkuna og í hvað ætlum við að nýta hana. Þessi almenna áhersla okkar í orkumálum er auðvitað aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa, áframhald orkuskipta, sjálfbær nýting orkuauðlinda, orkuöryggi heimila og fyrirtækja og nýsköpun í orkumálum, líkt og hv. þingmaður kom inn á, aukið afhendingaröryggi, raforka á landsbyggðinni o.s.frv. Í slíkri orkustefnu væri enn fremur unnt að koma fram með áherslur um sjálfa orkunýtinguna eins og hv. þingmaður spyr hér að.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á orkuskipti í samgöngum líkt og hv. þingmaður kom einnig inn á. Til að mæta því þarf að tryggja að næg raforka og fullnægjandi flutnings- og dreifikerfi sé til staðar á landsvísu, t.d. til að taka á móti aukinni rafbílavæðingu. Inn á það atriði mun sérstaklega verða komið í framangreindri tillögu til þingsályktunar um þessa stefnu. Það sama á við um áherslur er lúta að orkuöryggi fyrir heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki.

Ég ætla að segja líka í lokin að það er alveg rétt sem komið var inn á varðandi heiti laganna um rammann, það er í rauninni eilítið misvísandi, því sú vinna er ekki orkunýtingaráætlun. Það vantar orkustefnu og svo er ramminn þar við hliðina á, þ.e. hvar við ætlum að finna eða virkja þá orku sem okkur vantar. En þá þurfum við að vita hvaða orku okkur vantar.