146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016 um breytingu á II. viðauka og X. viðauka við EES-samninginn.

362. mál
[19:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri mér góðar vonir um að ég sé að tala hér fyrir réttu máli.

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016 sem mælir fyrir um að tilskipun Evrópusambandsins frá 2014 um skil á menningarminjum verði tekin upp í EES-samninginn.

EES-samningurinn gengur m.a. út á að ekki sé heimilt að takmarka viðskipti með vörur innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hins vegar eru á þeirri reglu ákveðnar undantekningar. Til dæmis er EES-ríkjunum heimilt að setja bann við að menningarleg verðmæti séu flutt úr landi. Í þeirri tilskipun sem hér er lagt til að verði tekin upp í EES-samninginn eru settar reglur um hvernig skuli standa að skilum á menningarminjum sem hafa verið fluttar úr EES-ríki í trássi við bann í viðkomandi ríki. Kemur tilskipun í stað eldri tilskipunar um þetta efni og miðar þessi nýja tilskipun að því að auðvelda skil á menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega úr landi.

Hér á landi eru í gildi lög um skil á menningarverðmætum til annarra landa og kallar innleiðing þessarar tilskipunar á breytingu á þeim lögum.

Ákvörðun var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni. Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis ber að aflétta slíkum fyrirvara með þingsályktunartillögu. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.