146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:34]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Mér fyndist það bara óviðeigandi ef ég myndi ekki taka þátt í þessari umræðu, manneskja sem hefur þurft að vinna og synda í þessu umhverfi til að fá ríkisborgararétt fyrir börnin mín og gera það hér og þar og alls staðar. Því fagna ég þessu frumvarpi.

Ég viðurkenni að það eru nokkur mál sem hafa komið inn til mín þar sem einmitt væntingar hinsegin foreldra sem eiga börn hafa lent svolítið á milli — hvernig er þetta orðað á íslensku? (Gripið fram í: Skips og bryggju.) Takk kærlega, hv. þingmaður, fyrir að bjarga mér þar. — Ég var sérstaklega glöð að sjá það og ég er sérstaklega glöð að heyra orð hæstv. dómsmálaráðherra að við munum halda áfram í þeirri vinnu að uppfæra okkur. Ég vildi bara í ljósi síðustu umræðu að minna okkur á orðin sem eru í stjórnarsáttmála okkar hvað varðar innflytjendur og útlendingamál. Ég veit að við erum að innleiða líka lög um innflytjendur sem við munum stöðugt hafa til endurskoðunar. Ég vildi bara koma upp og bergmála sjónarmið ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Í fjölmenningarsamfélagi felst mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga. Innflytjendum verði auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.“ — Hér erum við einmitt að gera það, frá fæðingu.

„Vandað verði til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og stefnt að því að taka á móti fleiri flóttamönnum. Eftir sem áður verði fjármagn tryggt til neyðaraðstoðar á vegum alþjóðlegra stofnana.

Styðja verður við innleiðingu nýrra útlendingalaga til þess að tryggja virkni þeirra gagnvart viðeigandi stofnunum og þjónustu. Hafa skal mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, samanber skyldur í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, og afgreiðslutími styttur án þess að það bitni á vandaðri málsmeðferð.“

Ég tel að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af að þetta muni ekki vera virt í þessu máli. Ég hef ekki meira að segja núna.