146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skattar, tollar og gjöld.

385. mál
[15:21]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld. Mig fýsir að fá upplýsingar um nokkur atriði í frumvarpinu. Það fyrsta er hvers vegna ekkert kostnaðarmat fylgir frumvarpinu, sem mér finnst alltaf mikil synd þegar verið er að gera breytingar á frumvarpi er varðar tekjur ríkissjóðs. Ég myndi gjarnan vilja fá að heyra af hverju þetta vantar í frumvarpið. Eins myndi ég gjarnan vilja fá að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra. Eitt af meginefnum frumvarpsins er að hér er lögð til undanþága og endurgreiðsla virðisaukaskatts og annarra skatta og gjalda á grundvelli alþjóðasamninga, tvíhliða samninga eða sérstakra laga þar um. Eftir því sem mér sýnist er það a.m.k. á þremur stöðum í frumvarpinu; breyting á lögum um gistináttaskatt, breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki og breyting á lögum um virðisaukaskatt, þar sem gerðar eru breytingar er varða innflutning á vörum erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þar með talið Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar, herliðs Bandaríkjanna og annarra aðila, einnig varðandi gistináttaskatt og endurgreiðslu á tóbaksgjaldi. Vegna þeirra breytinga sem við sjáum í alþjóðastjórnmálum, og sérfræðingar á því sviði hafa einmitt verið að ræða það og rita að fókuspunkturinn í hernaðaræfingum Atlantshafsbandalagsins muni færast á Norður-Atlantshafið og við þar með þó að engar upplýsingar komi frá utanríkisráðuneytinu þar um, er við því að búast að hér muni umfang hernaðaræfinga verða meira, fleiri muni koma hingað til að gista. Ég velti fyrir mér varðandi þessar æfingar hver ástæðan sé, vegna þess að þetta frumvarp er m.a. samið í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Ég myndi gjarnan vilja fá að vita og fá skýringar frá hæstv. fjármálaráðherra um þau atriði frumvarpsins.