146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skattar, tollar og gjöld.

385. mál
[15:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Svarið við fyrri spurningunni um hvers vegna ekki sé kostnaðarmat er að í frumvarpinu er talið að felist nánast engar verulegar kostnaðarbreytingar fyrir ríkissjóð. Það er í raun og veru kostnaðarmatið, að það séu hverfandi breytingar á tekjum og gjöldum ríkissjóðs við þessar breytingar. Þótt þær séu allnokkrar eru þær flestar tæknilegs eðlis og ekki gert ráð fyrir að í þeim felist verulegur kostnaður fyrir ríkissjóð.

Hvað varðar seinni spurninguna, um breytingar á grundvelli alþjóðasamninga, er kannski fyrst og fremst verið að vísa til samninga þar sem gert er ráð fyrir að við séum að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Dæmi um þetta eru að hér hefur verið lið til alþjóðlegra æfinga, t.d. í flugi og annað, þau hafa verið hérna um stuttan tíma og einungis tímabundið þannig að verið er að gera þessar breytingar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga. Það er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að von sé á neitt fleirum hingað eða færri, heldur er einungis verið að gera þessa breytingu miðað við þær skuldbindingar sem við höfum gengist undir.