146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skortsala og skuldatryggingar.

386. mál
[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skortsölu og skuldatryggingar á þskj. 516, máli nr. 386. Frumvarpið felur eingöngu í sér innleiðingu reglugerðar ESB nr. 236/2012, um skortsölu og skuldatryggingar, í íslenskan rétt. Meginefni frumvarpsins er því lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um það hvernig eftirlit með ákvæðum frumvarpsins fer fram, um heimildir eftirlitsaðila til upplýsingaöflunar, aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, viðurlagaákvæði, kæru til lögreglu og heimild ráðherra til að setja reglugerðir.

Með skortsölu er átt við sölu á fjármálagerningi þegar gerningurinn er ekki í eigu seljanda þegar hann gerir samning um sölu og fær hann þá yfirleitt fjármálagerninginn að láni. Vonir fjárfestisins standa til þess að á meðan fjármálagerningurinn er ekki í hans vörslu lækki virði hans og hann hagnist af því að kaupa gerninginn til baka á lægra verði en hann seldi og afhenda þeim sem lánaði honum. Það er þó ekki nauðsynlegt að fá fjármálagerning að láni til að stunda skortsölu. Til að mynda þekkist það að gera aðrar ráðstafanir, án þess að gera samning um að fá fjármálagerninginn að láni. Það er kallað óvarin eða nakin skortsala. Þannig geta fleiri en einn fjárfestir byggt skortsölu á einum og sama fjármálagerningnum. Í því felst töluverð uppgjörsáhætta fyrir markaðinn sem heild.

Tildrög skortsölureglugerðarinnar má m.a. rekja til áhyggna af því að skortsala geti leitt til þess að aðilar geti í auknum mæli ekki gert upp viðskipti. Enn fremur hefur verið talin hætta á því að skortsala geti við vissar aðstæður magnað hlutafjárlækkun fjármálastofnana sem eru á markaði og með því leitt til óstöðugleika og aukinnar kerfisáhættu.

Meginefni skortsölureglugerðarinnar má draga saman í eftirfarandi 11 þætti:

1. Skortsala með hlutabréf eða ríkisskuldir verður að vera varin, annaðhvort með því að fá bréfin að láni eða hafa varið stöðuna á annan hátt. Óvarin skortsala með hlutabréf eða ríkisskuldir verður þannig óheimil.

2. Einungis verður heimilt að gera samning um viðskipti með skuldatryggingu á ríki ef þau viðskipti leiða ekki til óvarinnar stöðu í skuldatryggingu á ríki.

3. Miðlægur mótaðili sem veitir stöðustofnunarþjónustu vegna hlutabréfa skal tryggja aðferðir til uppkaupa á bréfum standi seljandi ekki við afhendingu. Jafnframt skal seljandi greiða dagsektir þar til uppgjör hefur farið fram. Sá aðili sem veita skal stöðustofnunarþjónustu stillir sér upp á milli aðila í viðskiptum og verður kaupandi gagnvart hverjum seljanda og seljandi gagnvart hverjum kaupanda. Þetta er gert til að takmarka verulega uppgjörsáhættu vegna viðkomandi viðskipta. Með stöðustofnun er átt við ferlið við að stofna stöður, þar með talið útreikning á hreinni skuldbindingu, og við að tryggja að fjármálagerningar, reiðufé eða hvort tveggja sé til staðar til að tryggja áhættuskuldbindingar sem leiðir af þeim stöðum.

4. Tilkynna skal um hreinar skortstöður í hlutabréfum til Fjármálaeftirlitsins þegar staðan nær viðkomandi tilkynningarmörkum eða fer undir þau. Tilkynningarmörkin eru 0,2% af útgefnu hlutafé viðkomandi félags og hvert 0,1% umfram það.

5. Birta skal opinberlega hreinar skortstöður í hlutabréfum þegar staðan nær viðkomandi birtingarmörkum eða fer undir þau. Birtingarmörkin eru 0,5% af útgefnu hlutafé viðkomandi félags og hvert 0,1% umfram það. Fjármálaeftirlitið skal birta stærri skortstöður í hlutabréfum á vefsíðu sinni.

6. Tilkynna skal um hreinar skortstöður í ríkisskuldum til Fjármálaeftirlitsins þegar staðan nær eða fer undir viðkomandi tilkynningarmörk sem Evrópska verðbréfaeftirlitsstofnunin ákveður hverju sinni.

7. Fjármálaeftirlitið skal ársfjórðungslega veita Evrópsku verðbréfaeftirlitsstofnuninni upplýsingar í formi yfirlits að því er varðar hreinar skortstöður í hlutabréfum og ríkisskuldum og um óvarðar stöður í skuldatryggingum á ríki.

8. Við sérstakar aðstæður og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að aðilar sem eiga skortstöður í ákveðnum fjármálagerningi eða flokki fjármálagerninga tilkynni um það eða birti opinberlega upplýsingar um stöðurnar ef þær ná yfir eða fara niður fyrir tilkynningarmörk sem Fjármálaeftirlitið hefur sett.

9. Við sérstakar aðstæður og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að aðilar sem taka þátt í að lána tiltekinn fjármálagerning eða flokk fjármálagerninga tilkynni um allar verulegar breytingar á gjöldum sem tekin eru fyrir slíka lánveitingu.

10. Við sérstakar aðstæður og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum getur Fjármálaeftirlitið bannað eða sett skilyrði fyrir skortsölu eða sambærilegum viðskiptum. Hið sama á við um viðskipti með skuldatryggingar á ríki.

11. Við sérstakar aðstæður og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum getur Eftirlitsstofnun EFTA beitt sér beint gegn aðilum á markaði, annars vegar með því að krefjast þess að aðili sem á hreina skortstöðu í tengslum við tiltekinn fjármálagerning eða flokk fjármálagerninga tilkynni Fjármálaeftirlitinu þar um eða birti upplýsingarnar opinberlega, hins vegar með því að banna eða setja skilyrði fyrir skortsölu eða sambærilegum viðskiptum.

Áhrif á íslenskan fjármálamarkað af frumvarpinu eru talin óveruleg miðað við stöðuna í dag. Til framtíðar litið mun frumvarpið hafa þau áhrif að eftirlitsaðilar og almenningur munu hafa mun betri upplýsingar um skortsölur og hugsanlega uppbyggingu á áhættu í fjármálakerfinu. Þá munu eftirlitsaðilar hafa betri úrræði en í dag til að bregðast við áhættu og stöðva viðskipti. Fjármálaeftirlitið gerir ráð fyrir hálfu til einu stöðugildi vegna eftirlits en að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið feli í sér viðbótarkostnað.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og síðan til 2. umr. í þinginu.