146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem varðar lánshæfi aðfaranáms. Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samráði við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Tilefni frumvarpsins er það að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Lánasjóður íslenskra námsmanna – Lánshæfi náms og þróun útlána frá því í júní 2011 kom fram að lánveitingar vegna aðfaranáms fara ekki aðeins í bága við 1. og 2 gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, heldur er einnig brotin jafnræðisregla gagnvart þeim sem leggja stund á framhaldsskólanám til stúdentsprófs. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði lagastoð undir námslán lánasjóðsins til nemenda vegna aðfaranáms hér á landi.

Aðfaranám og viðurkenning þess sem aðstoðarhæft nám hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna gefur ákveðnum hópi einstaklinga aukin tækifæri til að afla sér frekari menntunar. Eitt helsta sjónarmiðið að baki aðstoðarhæfi aðfaranáms er að samsetning nemendahóps í því námi er ólík því sem er í hefðbundnu námi á framhaldsskólastigi. Nemendur eru eldri og koma oftast nær til námsins úr atvinnulífinu. Aðfaranám er skipulagt af háskólum til eins árs og það ásamt starfsreynslu nemanda myndar brú til náms við viðkomandi háskóla. Slíkir nemendur eru yfirleitt virkir á vinnumarkaði og líklegir til að hafa fjárhagslegar skuldbindingar. Þess vegna má telja að umræddir nemendur eigi erfitt með að hætta vinnu og fara í nám sem ekki væri aðstoðarhæft.

Nemendur sem hefja aðfaranám þurfa því að hafa lokið umtalsverðu námi á framhaldsskólastigi eða fengið raunfærnimat sem samtals uppfyllir lágmarksskilyrði til inntöku í viðkomandi háskóla. Aðfaranám er ekki ígildi náms til stúdentsprófs og veitir því að öllu jöfnu ekki rétt til aðgengis að öðrum háskólum en þeim sem skipuleggja viðkomandi aðfaranám.

Það hefur verið eitt af meginhlutverkum Lánasjóðs íslenskra námsmanna að jafna aðgengi og möguleika til aukinnar menntunar óháð efnahag og er trygg lagastoð fyrir veitingu námsaðstoðar til aðfaranáms í samræmi við það hlutverk sjóðsins. Ekki verður nú frekar en verið hefur lagastoð fyrir aðfaranámi við erlenda háskóla, enda er lánshæfi aðfaranáms á Íslandi gert til að mæta ákveðinni þörf hér á landi. Þar sem um er að ræða eins konar undantekningu frá lánshæfi náms á framhaldsskólastigi var ákveðið að ganga ekki lengra en þörf krefur og lána því einungis til aðfaranáms til háskólanáms hér á landi. Gert er ráð fyrir að þeir nemendur sem stunda aðfaranám til háskólanáms erlendis fyrir gildistöku frumvarps þessa og notið hafa fyrirgreiðslu sjóðsins fái tækifæri til að ljúka því námi eftir þeirri framkvæmd sem verið hefur.

Vegna yfirstandandi endurskoðunar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þar sem framtíðarfyrirkomulag um lánshæfi aðafaranámsins verður ákveðið, þykir rétt að setja lagastoð undir lánshæfi aðfaranáms hér á landi, enda hefur Ríkisendurskoðun bent á að skortur sé á lagastoð og Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur gefið út að þeir muni ekki lána í aðfaranám nema með beinum tilmælum frá yfirvöldum.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.