146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál og það að grípa þurfi til aðgerða hefur legið fyrir frá árinu 2011, þ.e. í fimm til sex ár. Þar var svo komið að stjórn LÍN taldi sér ekki lengur fært að veita þessi lán nema fyrir þeim væri lagastoð. Það kann vel að vera að ekki sé eftirspurn eftir þessum lánum, þá reynir ekkert á það. En ef til þess kemur þá segir stjórn LÍN við ráðuneytið að það sé algjört skilyrði fyrir því að lán til þessa náms verði veitt áfram að fyrir því séu lagafyrirmæli eða lagaheimildir. Af þeirri einu ástæðu er þetta mál hér borið fram. Þetta er ekkert flóknara en það. Grunnurinn að frumvarpinu liggur fyrst og fremst í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hefur legið fyrir allan þennan tíma og það eru engar duldar meiningar eða nein önnur ætlun á bak við þetta frumvarp en sú að styrkja heimildina fyrir því svo að stjórn lánasjóðsins hafi heimildir til að lána fé til þessa náms ef einhverjir nemendur eða stúdentar sækjast eftir því.