146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

útlendingar.

236. mál
[20:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stutta svarið við þessu er að gert ráð fyrir því og eftir því sem ég tel mig hafa upplýsingar um eru umsóknir metnar á einstaklingsbundnum forsendum, en auðvitað skiptir máli þegar tekin er afstaða til mála af þessu tagi hvort um er að ræða ríki sem bæði hér á landi og af stjórnvöldum í nágrannaríkjunum eru álitin örugg ríki, það skiptir máli. Hins vegar er um það að ræða að mál eru skoðuð á einstaklingsbundnum forsendum. Það sem þessi breyting felur í sér gerir það hins vegar að verkum að þegar Útlendingastofnun hefur komist að niðurstöðu þá missir enginn kærurétt en hins vegar er unnt að vísa þeim úr landi sem taldir eru sækja um án þess að hafa nægilegar forsendur fyrri því.

Ég hygg að það muni geta stytt málsmeðferðartíma eða stytt þann tíma sem viðkomandi einstaklingar eru hér á landi sem hælisleitendur allverulega sem gefur okkur þar með kost á að standa betur að móttöku þeirra sem sækja um hæli á traustari forsendum en þarna er um að ræða. Þetta er heimildarákvæði. Ég held að ekki sé ástæða til þess að ætla að því verði misbeitt. Ég held að ekki sé ástæða til þess að ætla að það muni leiða til þess að vegabréfið eitt verði sá mælikvarði sem verði lagður á þau mál.