146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áður sagt að mér finnst ósmekklegt þegar menn nota orðfæri eins og hv. þingmaður gerði í lokin þegar ég er að upplýsa um hvað nákvæmlega er að gerast. Ég minni enn á orð sem ég minnti á í fyrra andsvari mínu. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir talaði um að auðvitað viti maður ekki allt sem gerist. Það eina sem er vitað er að ekki stenst allt sem við búumst við því að við erum að tala um óvissa framtíð.

Þessar fréttir koma hins vegar á afar góðum og heppilegum tíma vegna þess að við erum einmitt að ræða fjármálaáætlun. Ég tel að þetta séu afar jákvæðar fréttir. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við borgum þetta með álagi til þess að spara vaxtagreiðslurnar fram í tímann, þar með taldar vaxtagreiðslur vegna yfirstandandi árs. En við teljum að undirgengnu mati að þetta sé hagstæðasta uppgreiðsla á lánum sem okkur stóð til boða. Það má segja að það hafi tekist vonum framar að kaupa, því að 88% af þessum skuldabréfaflokki var greiddur upp núna með tilboði ríkissjóðs.

Varðandi hvaða peningar þetta séu var notuð innstæða ríkissjóðs í Seðlabankanum upp á rétt um 100 milljarða króna.