146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:11]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mjög einfalt svar við stórum hluta þeirra spurninga sem hv. þingmaður beinir til mín. Já, ég er sammála hv. þm. Óla Birni Kárasyni að ég teldi það vel koma til greina og raunverulega æskilegt. Við þurfum að ráðast í mikið átak, ekki bara í vegaframkvæmdum heldur hafnarmálum, endurbótum á flugvöllum og slíkum þáttum og það mætti vel formbreyta eignarhluta okkar í flugstöðinni til að gera slíkt. Já, ég er að segja það þegar ég tala um eignasafn ríkisins og hvernig við getum breytt því til að sækja hraðar fram í þeim efnum. Ég ætla hins vegar að árétta að ég tel mjög mikilvægt að í meðferð þingmálsins hér og þegar rætt verður um virðisaukaskattsbreytingar á ferðaþjónustu og aðdraganda hennar fari þingnefndin vandlega yfir það og skeri þá úr um hvernig við stöndum að slíkri breytingu og hvort hún verði nákvæmlega eins útfærð og hún er í þeirri tillögu sem hér er komin. Ég vil undirstrika að þingið hefur málið núna í sínum höndum. Þingið á líka að vera óútreiknanlegt.