146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:24]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi nefna það sem hv. þingmaður flutti með sér úr fyrra andsvarinu og segja að það er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að undirbyggja fjárlögin með fjármálaáætluninni. Auðvitað á ýmislegt eftir að breytast. Við getum ekki alveg gefið okkur nákvæmlega á vordögum hvernig aðgerð verður eða hversu nákvæmar fjárlagatölurnar verða þegar kemur fram á haustið. Eftir því sem tíminn líður verður meiri vandi að spá. Það er eitt sem er staðreynd í lífinu, að það er mikill vandi að spá fyrir um hluti, sérstaklega um framtíðina.

Já, ég hef rætt samgöngumálin og vakið athygli á að enn sé gat á milli samgönguáætlunar og fjárframlaga. En samt vil ég taka fram að mér finnst það vera veruleg bót að við séum á áætlunartímabilinu að tala um tugi milljarða til viðbótar við það sem áður hefur verið lagt til samgöngumála. Staðreyndin er sú að nú leggjum við fram hæstu fjárhæðir til úrbóta í samgöngukerfinu sem við höfum gert í langan tíma, (Forseti hringir.) en eftirspurnin er gríðarleg. Ég biðst afsökunar, virðulegi forseti, að komast ekki í að svara um framhaldsskólann.