146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun til næstu fimm ára, bæði hugmyndir um tekjuöflun en líka fyrirhugaða skiptingu útgjalda milli málaflokka. Ég vil í upphafi segja að ég tel mikla þörf fyrir að tekjuöflunarkerfi ríkisins verði endurskoðað út frá þeim sjónarmiðum annars vegar að ríkissjóður — sem er til fyrir okkur, við erum ekki til fyrir hann — standi undir þeim samfélagslegu verkefnum sem við teljum að hann eigi að standa undir, en líka út frá þeim markmiðum að kerfið sé gagnsætt, skilvirkt og tryggi jöfnuð.

Ég tel ekki að þær breytingar sem boðaðar eru á skattkerfinu séu í þá átt. Ef við skoðum til að mynda hvernig ójöfnuður hefur þróast á Íslandi eins og í öðrum vestrænum samfélögum er staðreynd að ójöfnuður vex mest hvað varðar eignir, ekki tekjur. Ráðamenn hafa gjarnan talað um aukinn jöfnuð og horfa þá til teknanna. Raunar eru blikur á lofti varðandi það að sá aukni jöfnuður sem náðist á sínum tíma sé heldur að dvína. En þegar við lítum til eignanna er staðan sú að ríkustu 10% á Íslandi eiga 73% af öllum auðnum, ríkustu 20% eiga 90% af auðnum. Samt er ekki enn hafin nein umræða að ráði um hvort við teljum að það skattkerfi sem við höfum í dag stuðli að því að við getum náð fram jöfnuði þegar kemur að skiptingu auðs í samfélaginu.

Þá vitna ég til hugmynda um að skattleggja fjármagnið, auðinn, fjármagnstekjur í auknum mæli, og tryggja þannig betur grundvöll ríkissjóðs, en ná um leið fram markmiðum um aukinn jöfnuð. Ég vísa líka til þess sem hér hefur iðulega verið rætt í þessum sal, til auðlindagjalda, veiðigjalda, sem skipta verulegu máli til að tryggja þennan jöfnuð því að þar verða gríðarlegar tekjur til. En einnig snýst það um að almenningur fái sanngjarna rentu af sameiginlegum auðlindum.

Þær skattbreytingar sem hér eru boðaðar þjóna ekki þessu markmiði. Ég lýsi hins vegar ánægju með þá tillögu að lagt er til að hækka kolefnisgjaldið. Það tel ég mikilvægt skref í að koma á grænni sköttum. Ég hefði viljað sjá frekari breytingar í þá átt en lýsi ánægju með þá breytingu.

Ég varð auðvitað jafn hissa og ferðaþjónustan að sjá þá tillögu að hún verði færð í efra þrep virðisaukaskattskerfisins því að fyrir kosningar var ekki talað með þeim hætti til að mynda af Sjálfstæðisflokknum þar sem beinlínis stendur í kosningaáherslum þess flokks að skattlagning á greinina verði ekki aukin. Ég er því ekki hissa á að ferðaþjónustan sé hissa á að sjá þessa niðurstöðu.

Það eru margar fleiri leiðir til að styrkja tekjustofna ríkisins án þess að það bitni á almenningi í landinu. Í raun ættum við að horfa til þess hvernig við getum tryggt aukinn jöfnuð annars vegar með því að skattleggja fjármagnið og hins vegar að bæta kjör hinna verst settu, sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Ég gerði að umtalsefni í störfum þingsins fyrr í dag fólk sem er með 300 þús. kr., jafnvel 260 þús. kr. í heildarlaun og nær ekki endum saman. Það er sá hópur sem er á lægstu laununum, öryrkjar og aldraðir, sem við ættum að einbeita okkur að að bæta kjörin hjá og tryggja að geti náð endum saman í takt við þau útgefnu framfærsluviðmið sem stjórnvöld hafa sjálf birt á heimasíðu velferðarráðuneytisins.

Þetta eru stóru línurnar í því hvernig við högum ríkisfjármálum okkar, þ.e. hvar við sækjum tekjurnar og hvernig við skiptum gæðunum. Ég verð að segja að þær skattbreytingar sem hér eru lagðar til, fyrir utan kolefnisgjaldið, bera ekki endilega vott um mikla framsýni, þær bera ekki vott um þá sýn að við viljum tryggja aukinn jöfnuð í skattkerfinu. Þær bera ekki vott um neina raunverulega breytingarhugsun þegar kemur að því hvernig við öflum tekna fyrir sameiginleg verkefni okkar. Mér þykir það miður.

En það kemur kannski ekki á óvart ef við lítum á útgjaldaliðina. Þeir hafa fyrst og fremst verið til umræðu í dag, en eins og við sjáum og bent hefur verið á er sú aukning sem er boðuð í þessari fimm ára áætlun á mörgum sviðum orðum aukin.

Mér hefur orðið tíðrætt um málefni skólanna, menntamálin. Við eigum samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs þar sem gert er ráð fyrir að framlög á nemendur á háskólastigi nái meðaltali OECD-ríkja 2016 og meðaltali Norðurlandanna 2020. Ég heyri hv. þingmann stjórnarliða koma hér upp og verja að það verði gert með því að fækka háskólanemum, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði fyrr í dag. Að fækka háskólanemum! Ég sé hv. þingmenn stjórnarliðsins koma hér upp eftir að stytting framhaldsskólans var innleidd, sem ég tel að gert hafi verið þvert á anda laga um framhaldsskóla sem gera einmitt ráð fyrir að framhaldsskólarnir hafi faglegt svigrúm til að bjóða upp á ólíkar brautir, faglegt frelsi. Það var yfirskrift þeirra laga sem gengu í gildi 2008, en síðan var ákveðið einhliða að stytta nám til stúdentsprófs í þrjú ár með þeim orðum að sá sparnaður sem hlytist af því nýttist til að styrkja skólana. En nei, hann nýtist ekki til þess því að boðaður er niðurskurður á framlögum til framhaldsskóla, með þeim rökum að nemendum sé að fækka. Þá á ekki að nýta það til að bæta stofnþjónustuna, efla gæðin, þann sparnað sem verður af að fækka nemendum, hvað sem okkur finnst um það. Þótt talsvert sé talað um geðheilbrigðismál í kaflanum um framhaldsskóla sé ég til að mynda ekki rætt um að gera eigi t.d. sálfræðiþjónustu eðlilegan hluta af starfi framhaldsskóla þannig að nemendur geti leitað eftir slíkri þjónustu. Hins vegar er talað mikið um að brottfall sé of mikið og ekki horft til þess að þær rannsóknir sem við eigum sýni að þar eru sálfélagslegar orsakir algengastar. Nei, boðaður er niðurskurður í menntamálum.

Hér hefur verið bent á að framlögin til sjúkrahúsþjónustu standi ekki undir fjölgun sjúklinga þegar frá er tekin bygging nýs Landspítala, sem við fögnum að sjálfsögðu og erum sammála um að er gríðarlega mikilvægt mál. En við megum ekki gleyma rekstri heilbrigðisþjónustunnar.

Ég gerði að umtalsefni fyrr í dag samþykkt þingsins um 100 ára afmæli fullveldisins, náttúruminjasafn sem þar samþykkt er að byggja eigi að upp en það finnst ekki í áætluninni, fyrir utan það að farið er mjög almennum orðum um að mikilvægt sé að vernda náttúruminjar. Þar er líka talað um stórátak í máltækni. Á að taka það af öðrum rannsóknum? Því að ekki sér þess stað í áætluninni nema við ætlum að taka það af öðrum rannsóknum, tökum það úr samkeppnissjóðum eða einhverju slíku.

Húsnæðismálin hafa verið gerð hér að umtalsefni. Viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta eiga að haldast óbreyttar. Verið er að ráðast í stórfelldar breytingar á húsnæðisstuðningskerfinu með ákvörðunum í gegnum fjárlög án þess að lögð hafi verið nein framtíðarsýn um hvernig nákvæmlega eigi að standa að stuðningi hins opinbera. Við eigum hér ákveðna framtíðarsýn þegar kemur að uppbyggingu leiguhúsnæðis í gegnum þau húsnæðisfrumvörp sem samþykkt voru á sínum tíma. En ítrekað, bæði á síðasta kjörtímabili og núna, hafa vaxtabætur verið skertar án þess að um farið hafi fram pólitísk umræða. Mér finnst það athugunarefni þegar við horfum á þann vanda sem er á húsnæðismarkaði í dag, framlög til húsnæðismála skerðast beinlínis.

Tíminn er stuttur. Ég verð að lokum að gera að umtalsefni hvernig nákvæmlega við ætlum að vinna þessa fjármálaáætlun. Nú er fyrirhugað að nefndir þingsins fái þessa áætlun til umsagnar. Nefndirnar hafa fengið vinsamleg tilmæli um að við þurfum að skoða sviðsmyndir, meta gæði mælikvarða, umsagnir okkar eiga að vera samræmdar í uppbyggingu og vissulega þurfi að koma með ábendingar um þau atriði sem ekki næst samstaða um.

Mér finnst þeir ekki skilja um hvað málið snýst sem skrifa þau tilmæli sem okkur voru að minnsta kosti send í efnahags- og viðskiptanefnd. Hér er verið að setja fram áætlun sem snýst um pólitíska grundvallarhugsun, hvernig við ætlum að afla tekna til að standa undir samfélagslegum verkefnum og hver þau samfélagslegu verkefni eigi að vera. Um það var kosið í haust. Hér stöndum við öll fyrir gríðarlega ólík sjónarmið. Og við fáum einhver undarleg tilmæli um að við eigum að skoða einhverja mælikvarða og sviðsmyndir og láta þess getið, líklega í neðanmálsgrein, ef við erum ekki sammála um þær pólitísku áherslur sem birtast í plagginu.

Frú forseti. Mér finnast vinnubrögðin í þessu máli heilt yfir ekki góð, allt frá því að fjármálastefnan kom hér inn og ekki var staðið nægilega vel að vinnunni í kringum það, til að mynda þegar kom að hlutverki efnahags- og viðskiptanefndar. Hér kemur fjármálaáætlun (Forseti hringir.) og við fáum einhver undarleg teknókratísk tilmæli um að skoða mælikvarða og sviðsmyndir. Ég held að fólk átti sig ekki á að hér er um að ræða hápólitískt plagg þar sem skilur á milli ólíkra flokka á Alþingi. Við erum að setja hér gríðarlega mikilvæg fordæmi og ég geri verulegar athugasemdir við þetta vinnulag Alþingis, frú forseti.