146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[11:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hverju lofuðu ríkisstjórnarflokkarnir þegar þeir hófu samstarf sitt? Þeir lofuðu stórkostlegri aukningu í innviðum, ekki síst í heilbrigðismálum. Það er komið í ljós hér, þó ekki hafi nema örfáir ráðherrar talað, að þeir eru ekki alveg með það á hreinu hvað sé helsta áherslumálið. Hverju lofuðu þeir númer tvö, sérstaklega Viðreisn og Björt framtíð? Þeir lofuðu auknu samráði og samtali við stjórnarandstöðuna til að búa til sátt og meiri stuðning við breytingar. Sá sem hér stendur kannast ekki við að hafa verið kallaður á fund um fjármálastefnuna. Ég veit að það sama gildir um aðra stjórnarandstöðuflokka og það þrátt fyrir að þessir flokkar hafi eins manns meiri hluta í þinginu og minni hluta atkvæða á bak við sig. Nú kemur í ljós að þær væntingar sem eru úti í samfélaginu byggjast á kosningaloforðum en þær verða ekki uppfylltar hér (Forseti hringir.) með þessari fjármálastefnu. Það hefði verið hægt að ná meiri sátt um hana. Það var ekki gert, ekki frekar en að standa við væntingar um innviðauppbyggingu.