146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

útlendingar.

236. mál
[11:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Þessi breytingartillaga er eflaust sú versta sem kom frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar í þessu máli. Þrátt fyrir að ég sé ansi mikið á móti þeim öllum er ég brjáluð yfir þessari. Hér er verið að taka af öll völd, allar heimildir, alla getu kærunefndar útlendingamála til að grípa inn í ef Útlendingastofnun tekur einhverja hörmulega ákvörðun. Við þekkjum dæmi þess að fylgdarlaus börn hafi verið send aftur til öruggra ríkja, að fórnarlömb mansals hafi verið send aftur til öruggra ríkja. Það sem við erum að gera hér er að gulltryggja að Útlendingastofnun geti sent fylgdarlaus börn, fórnarlömb mansals, hverja sem þá lystir, til svokallaðra öruggra ríkja, sem eru það fyrir mjög marga alls ekki. Við vitum að þeir sem koma frá þessum ríkjum — mikil er ábyrgð þeirra sem velja þau ríki sem kallast örugg ríki — munu ekki fá neina málsmeðferð hér eftir að þetta verður samþykkt. Þeir munu ekki fá réttláta málsmeðferð. Þetta er brot á Evrópulögum og þetta er brot á mannréttindum. Ég segi nei. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)