146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

um fundarstjórn.

[12:09]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég vil bara taka undir það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt varðandi fjarveru hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Um leið vil ég benda á að þrátt fyrir að við höfum fengið ágætistíma í gær til að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um forsendur þessarar fjármálaáætlunar, sem er töluvert mikið efni og tók sinn tíma að fara í gegnum, þá eru ýmis málefnasvið, sem heyra undir hæstv. fjármálaráðherra, sem hefði verið áhugavert að fá tækifæri til að fara nánar ofan í í dag. Þá á ég sérstaklega við um hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál og svo skatta-, eigna- og fjármálaumsýslu. Þetta var eðli málsins samkvæmt ekki það sem áherslan var á í gær, en þá vorum við að skoða forsendur fjármálaáætlunarinnar. Núna hefði verið fínt að fá líka að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um þessi málefnasvið.