146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:50]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi horfur um gengisbreytingar. Ég hef tekið eftir að flestir spáaðilar, markaðsaðilar og Seðlabankinn, hafa frekar gert ráð fyrir styrkingu krónunnar á komandi árum og þá væntanlega m.a. vegna þess að ferðamönnum muni halda áfram að fjölga. Við erum að einhverju leyti að bregðast við þessu með hugmyndum um breytingar í virðisaukaskatti en við gerum engu að síður, þrátt fyrir að sú breyting muni eflaust leiða til þess að tempra eitthvað fjölgunina, að hún muni halda áfram.

Annars er það hlutverk gengisins hverju sinni að laga sig að aðstæðum í þjóðarbúskapnum. Ef það er svo að raungengi íslensku krónunnar hefur færst svona til eins og margt bendir til er það ekki til vitnis um annað í sjálfu sér en að við stöndum betur. Það séu sterkari stoðir undir efnahag Íslendinga. Að íslenska krónan sé verðmætari í samanburði við aðra gjaldmiðla en hún áður var. Það eru sérstaklega jákvæð tíðindi. Það sem maður þarf hins vegar að hafa áhyggjur af er ef það verður eitthvert ofris í þessum efnum sem leiðir til þess að við fáum skell fyrir útflutningsgreinarnar. Það er sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af því að þrátt fyrir þá miklu kaupmáttaraukningu sem hér hefur orðið á undanförnum árum, m.a. vegna styrkingar á gengi krónunnar sem haldið hefur aftur af verðlagi á sama tíma og laun hafa hækkað mikið, sjáum við lítið lát á kröfunni um stórfelldar launahækkanir. Fyrstu merki sem ég sé varðandi þær kjaralotur sem fram undan eru við mörg stéttarfélög eru að krafan sé ekki upp á minni launahækkanir en verið hefur undanfarin ár.

Alveg í blálokin varðandi Brexit (Forseti hringir.) segi ég að þar þurfum við mjög að gæta hagsmuna okkar. Ég fagna því að utanríkisráðuneytið hefur verið að starfa með sérstakt teymi um það mál. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að við eigum mikla hagsmuni undir í því máli.