146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrst er til að taka að ég deili skoðunum hennar um að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að Evrópusambandið sé í lagi, svo að maður orði það nokkuð pent. Þetta er gríðarlega mikilvæg heimsálfa fyrir okkur, þó ekki væri nema bara á sviði þeirra mála sem standa mér nærri í embætti sem eru menningar- og menntamál og sókn okkar þangað eftir þekkingu. Það er alveg kýrskýrt í mínum huga, eins og kom fram í inngangi mínum að þessari umræðu, að það er eitt af stóru verkefnum Íslands að búa okkur undir þá breytingu sem er að verða þegar Bretar ganga þaðan út. Það mun kalla á töluvert miklar breytingar fyrir okkur.

Þegar spurt er um forgangsmálin vitna ég einfaldlega til þeirrar vinnu sem ég nefndi áðan. Utanríkisráðuneytið er, í ljósi þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað í veröldinni, að ganga í gegnum töluvert mikla vinnu sem gengur út á að skilgreina forgangsverkefni og raða áherslunum upp á nýtt. Ég nefndi áðan að þær upplýsingar sem hér eru bornar fram segja að gert sé ráð fyrir að sá starfshópur sem að þessu vinnur skili tillögum um þetta efni í haust.