146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:50]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargott yfirlit yfir málið. Það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra kom inn á í lok máls síns, þ.e. mikilvægi þess að þessir hlutir séu allir settir í samhengi, m.a. út af þingsályktunartillögu um orkuskipti í samgöngum. Það þýðir að við verðum að fylgja ferlinu í heild sinni. Við verðum þá að komast í að nýta þá náttúrulegu endurnýjanlegu orkugjafa sem eru til staðar í landinu, við verðum að byggja upp flutnings- og dreifikerfið þannig að til þess að komast í orkuskipti í samgöngum náum við þessum markmiðum, m.a. út af skuldbindingum okkar sem snúa að Parísarsáttmálanum. Þetta er eitt mál í heild sinni sem ekki er hægt að slíta í sundur.

Þess vegna fagna ég því sem ráðherrann hefur sagt og geri ráð fyrir að þingheimur allur vilji koma í þá vinnu að við förum sem allra fyrst að byggja upp öruggt flutnings- og dreifikerfi, sérstaklega út af þriggja fasa rafmagni sem hjálpar m.a. bændum og landbúnaði með að styrkja rekstur sinn.

Ég ítreka stuðning minn við ráðherrann í þeirri vinnu.