146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:20]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að verja um 4.113 milljörðum kr. til málefnasviðanna 34 á næstu fimm árum. Þar af eru fjögur þeirra að hluta eða í heild á ábyrgð dómsmálaráðherra. Það eru málefnasvið dómstóla, réttinda einstaklinga, trúmála og stjórnsýslu innanríkisráðuneytis, svið almanna- og réttaröryggis og grunnskráa. Á næstu fimm árum er stefnt að því að verja um 240 milljörðum kr. til þessara fjögurra málefnasviða, eða tæplega 6% af ramma fjármálaáætlunar. Aukning frá fjárlögum 2017 og ramma fjármálaáætlunar 2018 fyrir umrædd fjögur svið nemur um 3,4 milljörðum kr., eða um 8%. Hækkun á milli fjárlaga 2017 og ramma fjármálaáætlunar 2022 nemur 16%. Aukningin verður nýtt til þess að styrkja enn frekar grunnstoðir ríkisins.

Af einstökum verkefnum innan málefnasviðanna vill hæstv. dómsmálaráðherra sérstaklega nefna eftirfarandi:

Landsréttur tekur til starfa í upphafi næsta árs. Þá tekur einnig til starfa ný stjórnsýslustofnun allra dómstólanna, dómstólasýslan, en dómstólaráð verður lagt niður samhliða því. Unnið er að undirbúningi að starfsemi Landsréttar. Fjárhagsleg áhrif nýrrar dómstólaskipunar er um 35% aukning fjárframlaga til málefnasviðs árið 2018 ef miðað er við upphæð fjárlaga og fjáraukalaga árið 2016. Aukning á milli áranna 2017 og 2018 nemur tæplega 29%.

Þá gerir fjármálaáætlun einnig ráð fyrir því að ráðist verði í gerð nýrrar málaskrár héraðsdómstólanna sem styður við rafræna málsmeðferð og rafræna sendingu gagna milli dómstiga. Málaskráin hefur til þessa verið stór veikleiki í starfsemi héraðsdómstólanna, en brýnt er að dómstigin þrjú auk ákæruvalds, lögreglu og fullnustustofnana komi sameiginlega á rafrænni málsmeðferð.

Á tímabili fjármálaáætlunar verður tæplega 134 milljörðum kr. varið til málefnasviðs almanna- og réttaröryggis. Aukning frá fjárlögum 2017 og ramma fjármálaáætlunar 2022 nemur um 20%. Á undanförnum árum hefur viðbótarfjármagn verið veitt í eflingu lögreglunnar og nemur aukningin um 34% frá árinu 2013. Fjármagnið hefur m.a. farið í að mæta auknu álagi við landamæri í Keflavík, fjölgun lögreglumanna á landsvísu og endurnýjun á búnaði og tækjum.

Stefnt er að því að tryggja fé til löggæslumála næstu fimm árin svo leggja megi frekari áherslu á löggæslu í samræmi við fjölgun ferðamanna. Hálendiseftirlit er dæmi um slíkt, en einnig með áherslu á netglæpi og ofbeldisbrot. Þá verður kapp lagt á að byggja upp landamæravörslu sem er mikilvægur þáttur í öryggismálum þjóðarinnar.

Fram undan eru einnig kaup á þremur nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Núverandi þyrlukostur er kominn til ára sinna, en með endurnýjun þyrluflotans eykst rekstararöryggi og hagkvæmni. Með nýju þyrlunum má enn betur koma sjófarendum til bjargar og sinna meira álagi í verkefnum á landi, t.d. vegna aukins ferðamannastraums.

Stefnt er að því að auka sálfræði- og meðferðarúrræði í fangelsum landsins til að stuðla betur að farsælli aðlögun dómþola að samfélaginu eftir afplánun. Einnig er unnið að undirbúningi þess að tengja saman upplýsingakerfi stofnana réttarvörslukerfisins með rafrænum hætti. Þannig má bæta yfirsýn og samfellu málsmeðferðar, spara pappírskostnað og stórauka gagnaöryggi.

Svið réttinda einstaklinga, trúmála og stjórnsýslu ráðuneytisins gegnir því veigamikla hlutverki að veita einstaklingum þjónustu og tryggja grundvallarréttindi þeirra. Fjárveiting til málefnasviðsins eykst verulega milli áranna 2017 og 2018, eða um ríflega 16%. Er hér aðallega um að ræða að bregðast við fordæmalausum fjölda umsókna um hæli hér á landi, en í lok árs 2016 voru framlagðar umsóknir 1.132, en til samanburðar voru þær 354 í lok árs 2015. Gera þarf ráð fyrir að þessi fjölgun haldi áfram á árinu 2017 í ljósi þess að fyrstu mánuði þessa árs hafa borist fleiri umsóknir um hæli en sömu mánuði síðustu ár. Þá þarf jafnframt að gera ráð fyrir áframhaldandi sveiflum í málaflokknum með tilheyrandi ófyrirsjáanleika varðandi kostnað.

Hæstv. dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að það sé forgangsmál að stemma stigu við fjölgun hælisleitenda til Íslands frá öruggum ríkjum eins og Albaníu og Makedóníu og draga úr kostnaði við hæliskerfið. Í því skyni hefur ráðherra lagt til á Alþingi að ákvæði er afturkallar heimild til frestunar réttaráhrifa vegna umsókna um vernd sem Útlendingastofnun metur bersýnilega tilhæfulausar, verði lögfest til frambúðar líkt og við fjölluðum um hér áðan. Þá miða ný útlendingalög að því að dregið sé úr fjárhagslegum hvötum fyrir einstaklinga til að leita hingað með tilhæfulausar hælisumsóknir. Þá er þegar hafin vinna við að stytta afgreiðslutíma hælisumsókna án þess að það bitni á vandaðri málsmeðferð, og tryggja skjótan heimflutning fólks í kjölfar synjunar um hæli.

Fram undan eru umfangsmestu breytingar á persónuvernd sem gerðar hafa verið á þessu sviði í 20 ár vegna gildistöku nýrrar Evrópureglugerðar á sviði persónuverndar. Þörf er á því að veita fjárveitingar til persónuverndar umfram það svigrúm sem fyrir hendi er á málefnasviðinu.