146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið svo langt sem það nær.

Staða Landhelgisgæslunnar í dag, í þeim ramma sem henni er sniðinn, er sú að skipin liggja bundin við bryggju og flugvélin er leigð til verkefna erlendis vegna þess að fjármunir duga ekki til reksturs. Ég sé því ekki hvernig aukning næstu fimm ár frá þessum grunnpunkti, aukning sem öll er étin upp af þyrlukaupum, eigi eftir að skila sér í bættum rekstri í þessum málaflokki sem nær ekki bara yfir landhelgisgæslu heldur löggæslu og ýmislegt fleira.

Þá langar mig að spyrja um málefnasvið 2, dómstóla. Það málefnasvið lækkar ef við lítum á uppsöfnuð útgjöld á tímabilinu um 361 milljón. Á sama tíma er hins vegar ætlað að taka til starfa nýtt millidómstig, Landsréttur, með einum 15 dómurum og öllu því sem því fylgir. Landsréttur einn og sér mun kosta 600 milljónir á ári. Þegar áhrif af nýrri dómstólaskipan verða að fullu komin fram, segir í tillögunum, eru fjárhagsleg áhrif metin á um 700 millj. kr. á ári. Þetta eru viðbótargjöld sem þarf að finna stað í rammanum. Hvar, þegar við erum að minnka rammann um 361 milljón? Hvar ætlum við að finna þetta? Ætlum við að skera niður í Hæstarétti? Ætlum við ekki að skera niður í einhverjum öðrum dómstólum? Ætlum við ekki að útbúa Landsrétt öllum þeim tólum sem hann þarf til að vera það öfluga millidómstig sem við viljum að hann sé? Nýtt dómstig kostar 700 milljónir á ári og við erum að skera niður í dómsmálum.