146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég legg það til við stjórn þingsins að strax eftir páskahlé verði kallaðir til þeir tveir ráðherrar sem ekki sáu sér fært að vera við þessa umræðu í eigin persónu. Þó að báðir þeir ráðherrar sem gegndu staðgengilshlutverki fyrir þá sem voru erlendis hafi staðið sig með prýði að mestu voru svörin á köflum þunn og það gerðist raunar í það minnsta tvisvar hjá hæstv. ráðherra Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur að hún sagði hreint út að hún gæti ekki svarað tilteknum spurningum.

Ég tel eðlilegt að þingið ljúki umræðu um málefnasvið þeirra tveggja ráðherra sem ekki voru viðstaddir þannig að við getum spurt á dýptina ráðherrana sem hafa pólitíska umboðið til að svara okkur. Ég beini því til forseta að hlutast til um það.