146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:24]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að ræða þennan málaflokk, félagsmálahlið velferðarráðuneytisins. Ég tek undir það sem ég hef heyrt hér, mér finnst þetta mjög áhugavert og skemmtilegt form á umræðu um ríkisfjármálaáætlun og hlakka til umræðunnar sem fram undan er.

Við gerð þessarar ríkisfjármálaáætlunar var lögð megináhersla á skýra forgangsröðun til velferðar og á sama tíma að gæta aðhalds í ríkisfjármálum á tímum mikillar þenslu og í ljósi ítrekaðra aðvarana um nauðsyn aðgátar þar og slæmrar reynslu fyrri ára og áratuga í þeim efnum. Það var mjög í takt við áherslu Viðreisnar í kosningabaráttunni. Ég get með sanni sagt að sú áætlun sem lagt er upp með hér sem snýr að félagsmálum er í mjög góðum takti við þær áherslur sem við lögðum upp með í kosningabaráttunni og inn í stjórnarsamstarfið.

Verið er að auka hér útgjöld til félagsmála um rúmlega 13% að raunvirði miðað við yfirstandandi ár, eða um tæplega 30 milljarða. Þá eru ekki taldar með verðlagsuppfærslur, sem vega auðvitað þungt í þessum málaflokki. Útgjöld til velferðarmála verða í lok tímabilsins 57% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og hafa, held ég, aldrei verið hærri í því hlutfalli.

Helstu áherslur áætlunarinnar sem snúa að félagsmálunum liggja á sviði örorku og aldraðra. Útgjöld til örorkumála aukast um liðlega 14 milljarða á tímabilinu. Er þar fyrst og fremst horft til einföldunar á núverandi kerfi, upptöku starfsgetumats og aukinnar fjárfestingar í atvinnuúrræðum fyrir einstaklinga að lokinni starfsendurhæfingu. Útgjöld til málefna aldraðra aukast um tæpa 9 milljarða að raunvirði. Töluverð útgjaldaaukning verður eðli máls samkvæmt vegna lýðfræðilegrar þróunar. Þar fyrir utan er lögð áhersla á að auka sveigjanleika við starfslok, afnema hina svokölluðu 70 ára starfslokareglu hins opinbera, hækka frítekjumörk atvinnutekna í 100.000 kr. á mánuði í áföngum, hækka lífeyristökualdur í áföngum og stuðla að því að aldraðir hafi fleiri tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði, kjósi þeir það á annað borð.

Lögð er áhersla á að efla þjónustu við fatlað fólk og tryggja mannréttindi þess hóps, auka stuðning og ráðgjöf og eftirlit með þjónustu við fatlaða, efla réttindagæslu og vinna að því að uppfylla skyldur okkar gagnvart lögum og alþjóðasamningum. Þar er lögð sérstök áhersla á skyldu okkar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra, að tryggja fötluðu fólki sjálfstætt líf og tryggja að þeir geti lifað sjálfstæðu lífi. Þar leggjum við mikla áherslu á lögbindingu NPA, eða notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, sem verður lögbundin í frumvarpi sem liggur fyrir þinginu í vor og tekur gildi frá næstu áramótum. Er það mikið framfaraskref að mínu viti. Jafnframt er lögð áhersla á að fötluð börn eigi kost á frístundaiðkun til jafns við ófötluð börn og lagðir fjármunir til þess liðar.

Því til viðbótar er síðan lögð áhersla á að halda áfram endurreisn fæðingarorlofskerfisins, hækka hámarksgreiðslur og stuðla að aukinni orlofstöku feðra, en hún hefur dregist mjög mikið saman á undanförnum árum. Þetta er mikið réttindamál, ekki síður fyrir börn en foreldra, og verður ekki lögð nægilega mikil áhersla á mikilvægi þess að börn nái að mynda tengsl við föður líkt og við móður. Að mínu viti er eitt stærsta jafnréttismálið á vinnumarkaði að tryggja jafna orlofstöku foreldra og draga þannig úr þeim halla sem konur hafa borið í þessum efnum í gegnum árin.

Því til viðbótar er lögð áhersla á að sameina stuðningskerfi hins opinbera og beina því betur að láglaunahópum. Þar er sérstaklega horft til barnabóta, barnalífeyris og síðan vaxta- og húsnæðisbóta. Á vinnumarkaði er lögð sérstök áhersla á að auka virkni í atvinnuleit, auka stuðning við einstaklinga með skerta starfsgetu í atvinnuleit og fjölga vinnustöðvasamningum (Forseti hringir.) öryrkja til muna.