146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Mig langar til þess að nefna að þegar svona háum upphæðum er slengt fram er mjög auðvelt að fela sig bak við þær. En þegar maður fer að skoða prósentuhækkanir á t.d. öryrkja er hækkunin ekki svo mikil. Öryrkjabandalag Íslands fullyrðir að staða lífeyrisþega muni fara versnandi.

Ný fjármálastefna og fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar mun færa okkur fjær hinu norræna velferðarkerfi sem annars ríkir almenn sátt um í samfélaginu að við eigum að stefna að. Það hefur gerst í mjög smáum skrefum í gegnum árin og því er auðvelt að missa af merkjunum. Þessi ríkisstjórn er nú að kóróna það ferli. Það skiptir máli að allir séu meðvitaðir um hvaða afleiðingar þessi lokaskref munu hafa fyrir samfélag okkar.

Í inngangskafla fjármálaáætlunar um mikinn innbyggðan útgjaldavöxt er m.a. fjallað um fjölgun öryrkja og útgjöld til sjúkratrygginga umfram áætlanir. Þar er talað um varanlega útgjaldaaukningu og að brýnt sé að bregðast við með því að vinna áfram að hagræðingu í ríkisrekstri og markvissum verkefnum til að auka framleiðni. Hvergi er talað um forvarnir sem möguleika á því að fækka öryrkjum og sjúkum. Í stað þess á að sætta sig við að fjölgunin sé varanleg og fara í hagræðingaraðgerðir og auka framleiðni. Svo kemur niðurlagið í kaflanum þar sem litið er til framtíðar, en þar er að finna í hnotskurn þá hugmyndafræði sem liggur að baki fjármálaáætluninni. Þessi setning segir í raun allt sem segja þarf. Með leyfi forseta:

„Stjórnvöld bera þá ábyrgð að velja á milli skammtímahagsmuna og langtímahagsmuna, uppbyggingar og sparnaðar, skattlagningar og frelsis.“

Uppbygging er sem sagt sett í mótstöðu við sparnað og skattlagning er andstaða frelsis.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þetta hinn hugmyndafræðilegi rammi um framtíð Íslands sem hann byggir á. Mun framtíð velferðarkerfis Íslendinga vera mörkuð af lægri sköttum og lítilli uppbyggingu? Í stuttu máli, hvernig rímar þessi hugmyndafræði við áform ráðherra í embætti sínu?