146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:45]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Þarna er enn og aftur tæpt á mjög áhugaverðum álitaefnum. Þetta er kjarni málsins. Við erum að glíma við margvíslega þætti sem stuðla að aukinni örorkutíðni í samfélaginu. Í ráðuneytinu er verið að setja af stað greiningarvinnu varðandi helstu orsakir örorku. Kanna á til hvaða ráða við getum gripið til þess að koma í veg fyrir það eða grípa fyrr inn í og hjálpa fólki, t.d. í tengslum við langtímaatvinnuleysi, og veita þá aukinn stuðning og úrræði þegar kemur að ungum foreldrum varðandi ósveigjanleika í kringum dagvistun og álag sem því fylgir, sérstaklega fyrir einstæða foreldra við að vinna og sinna börnum sínum, lengd vinnutíma og svo mætti áfram telja. Allt eru það gríðarlega mikilvægir þættir. Það er mjög mikils virði fyrir samfélagið að horfa til þess hvað getum við gert til þess að efla stuðninginn á þessum sviðum einmitt til þess að hjálpa fólki aftur til virkni þegar það lendir í þeim áföllum sem ella leiða til örorku. Mjög mikil áhersla er á þann málaflokk í ráðuneytinu á komandi misserum og árum.