146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:47]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að geta átt samtal við hæstv. félagsmálaráðherra þar sem undir hann heyrir líklegast einhver viðkvæmasti málaflokkur sem við þurfum að takast á við hér, það eru almannatryggingar. (Gripið fram í.) Við skulum sjá, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Það sem ég ætla að gera að umtalsefni er að það voru tekin ákveðin skref á síðasta ári er vörðuðu eldri borgara. Það voru skref í rétta átt, ekki nægjanlega stór, við skulum viðurkenna það. Við þurfum að gera betur. En við eigum eftir að endurgera allt umhverfi almannatrygginga þegar kemur að öryrkjum. Ég sé að samkvæmt fjármálaáætlun er gert ráð fyrir því að endurskoðuð verði lög um almannatryggingar þegar kemur að öryrkjum, tekið upp starfsgetumat o.s.frv. Það sem ég vil hins vegar inna hæstv. ráðherra eftir er tímaramminn vegna þess að það skiptir mjög marga, í rauninni þúsundir öryrkja, gríðarlega miklu máli að hér sé staðið rösklega að verki og að okkur auðnist það líka í þingsal að taka höndum saman og koma þeim málum í lag. Ég hef sérstakar áhyggjur af ungum öryrkjum, öryrkjum sem hafa aldrei náð að vinna sér inn nein réttindi í lífeyrissjóðum o.s.frv. Við höfum reynt að bæta það með aldurstengdri örorkuuppbót, en það er okkur nú ekki til mikils (Forseti hringir.) sóma hvernig staðið er að því.

Ég tel því að það sé mikilvægt að (Forseti hringir.) við fáum aðeins skýrari svör hvernig ráðherrann sér það fyrir sér. Hver er tímaramminn, hvenær megum (Forseti hringir.) við vænta þess að við tökumst á við nýja lagasetningu í þessum efnum?