146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Mér heyrist við hv. þingmaður vera á sömu línu hvað þetta varðar. Tækninni fleygir fram. Við þurfum að vanda valið þegar við ákveðum í hverju við fjárfestum peninga skattgreiðenda. Við stjórnmálamenn ættum að vera síðastir til þess að veðja á tækninýjungar eða leggja allt undir þar. Það er hlutverk annarra sem kunna það miklu betur.

En við verðum samt að styðja við innviðina svo að þeir geti fengið að vaxa og dafna hvað þetta varðar. Bensínstöðvar geta selt bensín, hvernig eiga einkaaðilar eða þeir sem vilja fara í að selja rafmagn að gera það? Það er ekki fyrir hvern sem er að demba sér í það. Við eigum að sjá um regluverkið og að hafa hlutina liðlega þannig að þessar áætlanir geti gengið fram.

Það er engin ein heildarlausn í loftslagsmálum. Við verðum að gera margt á sama tíma. Það skiptir líka máli að við horfum á aukna landgræðslu, skógrækt, endurheimt framræsts votlendis. Við þurfum að passa upp á alla vistkerfisnálgun í því samhengi, að það sé heildarskipulag á hlutunum. Það er að mörgu að hyggja og engin ein lausn sem getur reddað okkur. Við verðum að gera margt og gera það samtímis.