146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:13]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að það er þetta plagg sem við ræðum nú sem skiptir máli þegar kemur að því að búa til samgönguáætlun. Ég var nú bara að vitna til þess hvar verkefnin eru skilgreind og hvernig þeim er forgangsraðað af hálfu þingsins. En það ræðst af niðurstöðu í vinnu við fjármálaáætlun og ríkisfjármálaáætlun og þá fjárlög fyrir næsta ár eftir því hvernig staðan verður fyrir þau. Það er gríðarlega mikil aukning á umferð, ekki síst á bílaleigubílaumferð. Ótrúlega hátt hlutfall ferðamanna tekur bílaleigubíla og ferðast með þeim. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, þetta er ófremdarástand þegar komið er inn á höfuðborgarsvæðið sunnan úr Keflavík. Því er orðið mjög brýnt að tvöfalda veginn frá þeim stað, sem er líka stór slysagildra, þar sem tvöföldun lýkur á Keflavíkurveginum og í gegnum Hafnarfjörð, ekki bara að honum heldur í gegnum hann. Í því felast þá mislæg gatnamót við N1-stöðina og síðan að vegurinn sé tekinn í stokk og grafinn niður yfir að Kaplakrika og komi þar út. Það er inni í þeirri vinnu sem er í gangi að skoða þetta sérstaklega og inni í þeim tölum sem ég nefndi áðan, sem eru reyndar óstaðfestar en eru sú grófa mynd sem hefur verið að dragast upp í þessari vinnu. Þeirri vinnu mun ljúka fyrir vorið og þá getum við rætt þetta betur. Það er þegar verið að setja á laggirnar samstarfshóp með þátttöku þingsins til að skoða þessi mál.

Ég man eftir því að þegar á sínum tíma var ákveðið að staðsetja spítalann við Hringbraut var talað um að Hlíðarfóturinn væri órjúfanleg framkvæmd, þ.e. vegur fyrir neðan Öskjuhlíð yfir í Fossvog þeim megin. (Forseti hringir.) Þetta þarf að skoða og dusta rykið af því hvort raunhæft sé að semja við borgaryfirvöld um staðsetningu á slíkum vegi. Ég held að það sé nauðsynlegt í framtíðinni og hafi ekkert breyst frá því á árinu 2008.