146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:11]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagðist myndu beita sér fyrir því að reyna að styðja við MAST. Ég hef lykilinn að þessu, það er bara að auka framlög til stofnunarinnar. Það er hægt að taka það einhvers staðar vegna þess að í raun og veru er borð fyrir báru í ríkisfjármálaáætlun, eða menn ná sér einfaldlega í nýjar tekjur.

Mig langar aðeins að minnast á annað, það er sjálfbær landbúnaður sem ég ber mjög fyrir brjósti og hvað þessi orð þýða í raun og veru, þessi þríþætta sjálfbærni sem við tölum svo mikið um, náttúran, samfélag, hagræni þátturinn. Allir þessir þættir ef maður rýnir í þá, landnýtingin, sparnaðurinn, lifandi og drífandi samfélög, hagsýni, góð framlegð fyrir krónuna, hvetja til þess, sjálfbærnin sjálf, að innflutningur búvara skoðist í ljósi sjálfbærni. Og jafnt að maður skoði bæði samþjöppun í rekstri búa — það eru sífellt færri bú, það gerist a.m.k. í mjólkurframleiðslunni — og alla afurðavinnslu, hvernig við högum allri afurðavinnslu í þessu landi og að því verði snúið við í raun og veru. Sjálfbærni krefst þess að við förum aðrar leiðir og förum að stunda það sem ég kalla afmiðjun í staðinn fyrir að horfa alltaf á meiri samþjöppun líkt og hv. þingmaður kom að hér á undan sem líkist að sumu leyti því sem hefur verið að gerast í sjávarútvegi.

Ég spyr einfaldlega, þetta er kannski almenn spurning: Hvernig endurspeglast þetta hugtak sjálfbærni í ríkisfjármálaáætluninni sjálfri? Það er jú þannig að þarna kemur fram pólitísk hagfræði, þetta er ekki fyrirtækjarekstur. Ég vil fá að vita hvernig hæstv. ráðherra sér sjálfbærni endurspeglast í þessari ríkisfjármálaáætlun.