146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Forseti. Aðeins varðandi rómantíkina þá er rétt að halda því til haga að þessi ríkisstjórn er mjög rómantísk og sér landið allt í mjög (Gripið fram í.) rómantískum blæ en líka raunsönnum. Við viljum halda rómantíkinni á lífi og þess vegna erum við að reyna að vinna áfram að framgangi mála sem tengjast landbúnaði, sjávarútvegi, umhverfismálum, en fyrst og síðast náttúrlega að því sem tengist forgangsröðun ríkisstjórnarinnar en hún kemur mjög skýrt fram. Við sjáum að á hverju einasta ári er afgangur að raunvirði upp á ríflega 20 til 40 milljarða og það þrátt fyrir að verið sé að auka verulega til heilbrigðismála, félagsmála og annarrar innviðauppbyggingar.

Það segir sig sjálft, og hv. þingmaður veit það manna best eftir að hafa verið í ríkisstjórn í mismunandi embættum, að fagráðherrar þurfa að una því þegar ákveðin stefna er tekin. Skýrustu fyrirmæli kosninganna voru þau að bæta í heilbrigðismálin. Það er verið að gera það. Við þurfum öll að einbeita okkur að því. Eins og ég sagði áðan hefði ég gjarnan viljað sjá mjög skýrt afmarkað fjármagn í nýtt hafrannsóknaskip, en svo er ekki. Ég ætla engu að síður ekki að hætta að berjast fyrir því.

Varðandi svigrúmið þá er það alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er ekki mikið. En ég er að reyna að upplýsa þingheim um að það svigrúm sem við þó fáum fer í rannsóknir. Það fer mestmegnis í rannsóknar, síðan í að reyna að byggja upp MAST. Ég tel einsýnt að þingið þurfi að koma síðar að því að reyna að treysta undirstöður MAST í ljósi þeirrar skýrslu. Ég hef reyndar lagt hana fram hér í þinginu sem þingskjal og ég vonast til þess að hæstv. forseti finni svigrúm fyrir umræðu um þá skýrslu í vikunni eftir páska.