146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég ætla að reifa í upphafsræðu minni heilbrigðismálin í fjármálaáætlun. Helstu áherslur fjármálaáætlunar í heilbrigðismálum snúa að aukinni áherslu á forvarnir og lýðheilsu og jafnframt að bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það verður leitast við að gera þjónustuna samhæfðari og auðvelda þannig einstaklingum að leita þjónustu á réttum stað, á þeim stað sem hæfir best viðfangsefnum og vandamálum hverju sinni. Aðgerðir til að efla þverfaglega heilsugæsluþjónustu miða að þessu marki, að reyna að koma í veg fyrir að einstaklingar leiti sérhæfðrar þjónustu, jafnvel bráðaþjónustu, þegar þess gerist kannski ekki endilega þörf.

Helsta verkefnið í sambandi við þverfaglega heilsugæsluþjónustu er fjölgun mismunandi faghópa, t.d. sálfræðinga, sjúkraþjálfara og næringarfræðinga, sem starfa innan heilsugæslunnar. Með þessu móti má auka líkurnar á að þörfum sjúklinga fyrir þjónustu sé mætt fyrr og draga úr þörf fyrir flóknari úrræði. Stefnt er að því að hlutfall sjúklinga á bráðamóttöku sjúkrahúsa sem ættu frekar að fá þjónustu á heilsugæslu lækki úr 20% í 10% fyrir árið 2022. Á tímabilinu er gert ráð fyrir að á heilsugæslustöðvunum starfi að lágmarki sex faghópar í hverju heilbrigðisumdæmi árið 2022.

Öldrunarþjónustan tengist sömuleiðis þessu markmiði. Með því að efla öldrunarþjónustu og gera hana samþættari er mögulegt að gera einstaklingum betur kleift að búa sjálfstæðu lífi á eigin heimili eins lengi og kostur er. Í þessu sambandi er samstillt þjónusta lykilatriði og við erum sammála um að þar getum við gert betur, t.d. með því að tengja betur heimaþjónustu, heilsugæslu, sjúkrahús og þjónustu við aldraða, t.d. í dagdvöl, endurhæfingu eða á hjúkrunarheimilum. Í þessu samhengi segi ég að stuðningur við heilbrigði er kannski lykilatriðið.

Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að efla heimahjúkrun og jafnframt að fjölga dagdvalarrýmum og rýmum á hjúkrunarheimilum á tímabilinu. Við upphaf tímabils fjármálaáætlunar verður um að ræða fjögur ný hjúkrunarheimili sem þegar liggja fyrir áætlanir um. Í lok tímabilsins er einnig gert ráð fyrir fjölgun hjúkrunarrýma. Markmiðið er að fram til 2022 verði hjúkrunarrýmum fjölgað um 292 og dagdvalarrýmum um 150.

Þegar kemur að þjónustu sjúkrahúsa ber hæst byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Annar núverandi húsakostur á svæði Landspítala verður bættur. Þar er stefnt að því að byggingu meðferðarkjarnans við Hringbraut sem er hjartað í nýja Landspítalanum verði lokið árið 2023. Verkefnið er þegar hafið með byggingu sjúkrahótels sem verður væntanlega tekið í notkun fyrir lok ársins.

Hvað aðrar byggingar varðar á lóð Landspítalans miða áætlanir við að jarðvegs- og gatnaframkvæmdir geti vonandi hafist í upphafi næsta árs og þá er einnig gert ráð fyrir að undirbúnings- og gatnaframkvæmdir hefjist í upphafi næsta árs.

Starf Sjúkrahússins á Akureyri verður einnig styrkt, sérstaklega á síðari hluta tímabilsins þegar gert er ráð fyrir að hefja byggingu nýrrar legudeildar við sjúkrahúsið.

Markmiðið um betri samþættingu og bætt aðgengi að þjónustu snýr ekki síst að heilbrigðisstofnunum um landið. Unnið verður að því að styrkja starf þeirra, einkum með hliðsjón af nýtingu verðmæta, mannafla, húsnæðis og tækja sem þar eru. Markmiðið er að vinna að því að auka aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu sem hægt er að veita á sjúkrasviði heilbrigðisstofnana sem næst einstaklingunum. Með aukinni samvinnu stofnana og stuðningi sérhæfðra sjúkrahúsa við almenn sjúkrahús er því hægt að veita fjölbreyttari þjónustu í nærumhverfi fyrir stærri hluta landsmanna en nú er.

Í fjármálaáætluninni verður sömuleiðis haldið áfram að bæta aðgengi að sértækum aðgerðum, með svokölluðu biðlistaátaki, sem verður haldið áfram út tímabilið og reynt að spýta í. Verkefnasviðið lýðheilsa og forvarnir verða áfram styrkt. Áhersla verður á heilbrigða lifnaðarhætti eins og ég minntist á áðan og þar standa vonir til að t.d. þjónusta næringarfræðinga innan heilsugæslunnar hafi góð áhrif.

Ég sé að tími minn er að verða búinn en við höfum nógan tíma í umræðunum.

Fjármálaáætlun endurspeglar mikilvægi öflugra forvarna, heilbrigðra lifnaðarhátta og góðrar þjónustu sem er aðgengileg og örugg. Til að ná þessum markmiðum er grundvallaratriði að heilbrigðisþjónustan hafi á að skipa nægum fjölda af hæfu starfsfólki. Menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks skiptir miklu máli en ekki síður að starfsumhverfi (Forseti hringir.) sé aðlaðandi fyrir áhugasama og öfluga starfsmenn sem hafa tækifæri til að veita góða þjónustu. Ég hlakka til umræðunnar.