146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir margar og góðar spurningar. Í fyrsta lagi störfum við samkvæmt geðheilbrigðisáætlun sem var samþykkt á Alþingi árið 2016 og áherslum hennar en erum að vinna í að gera betur, eða réttara sagt að innleiða þá áætlun hraðar en gert var ráð fyrir að hægt væri.

Varðandi hjúkrunarrýmin er viðmiðið sem hv. þingmaður spurði út í svokallað RAI-mat þar sem metin er hæfni einstaklinga og þörf fyrir þjónustu. Það mat stýrir síðan aðgengi að þjónustunni og er sömuleiðis notað sem grundvöllur fyrir kostnaðarmati bak við einstaklinga þegar kemur að úthlutunum til hjúkrunarheimila. Það er embætti landlæknis sem setur viðmið um aðstöðu o.s.frv.

Hv. þingmaður spyr um biðtíma eftir endurhæfingu. Því er til að svara að unnið verður í því að hann verði styttur. Endurhæfing er mjög mikilvæg, ekki bara fyrir aldraða heldur aðra sem á henni þurfa að halda. Með því að bæta endurhæfingu og stytta biðlista eftir henni er auðveldara að gera einstaklingana ekki bara sjálfstæða heldur þannig að þeir komist til starfa o.s.frv.

Varðandi fjölgun hjúkrunarrýma er gert ráð fyrir að hún verði tæplega 300 rými á tímabilinu og fjölgun dagdeildarrýma eitthvað um 170 á tímabilinu, ef ég man rétt.

Og já, samstarf við sveitarfélögin (Forseti hringir.) í þessari uppbyggingu allri verður skoðað enda mjög mikilvægt að þessi tvö stig vinni saman.