146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:26]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Þetta er mikilvægt mál. Það hefur lengi verið vöntun á styrkingu iðnnáms og kannski ekki síst nýjum námsbrautum tengdum þeirri breytingu sem er að eiga sér stað í samfélaginu, t.d. tengdum „mechatronics“ og sjálfvirknivæðingu og þess háttar á borð við það sem hefur verið þróað innan Fab Lab smiðja víða á landsbyggðinni. Ég tók reyndar þátt í að hanna fjögur námskeið á framhaldsskólastigi fyrir Fab Lab á sínum tíma. En ekki hefur verið gengið neitt lengra með slíka hugmyndafræði. Sömuleiðis þessu tengt hefur vantað að fylgja eftir löggildingum. Enn í dag eru veggfóðrun og hattasaumur löggildar iðngreinar og ágætar svo sem út af fyrir sig, en ekki er búið að uppfæra t.d. ýmsar iðngreinar, einhvers konar „mechatronics“ eða sjálfvirknivæðingarhugmyndir eða atriði eins og garðyrkjuframleiðslu (Forseti hringir.) á borð við ylrækt eða skógrækt.