146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:27]
Horfa

Bjarni Halldór Janusson (V):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að gera þarf iðn- og verknám eftirsóknarverðara, m.a. með því að bæta ímynd námsins. Ef til vill væri hægt að koma betur til móts við þá námsmenn í gegnum námslánakerfið. En ég held að við þurfum líka að ræða aðeins um starfið sem tekur við að námi loknu. Það þarf að byggja níu þúsund íbúðir á næstu þremur árum til að anna eftirspurn. Byggingariðnaður í núverandi mynd getur það varla. Til viðbótar fer verkefnum fjölgandi erlendis vegna bættrar efnahagsstöðu og að öllum líkindum verður erfiðara að fá hingað til lands erlent vinnuafl. Þess vegna er mjög mikilvægt að fjölga starfsfólki í iðnaði. Til þess væri hægt að bæta kjör iðnaðarfólks og tryggja til dæmis að undirverktakar og starfsmannaleigur standi skil á öllu sínu og greiði ekki undir launataxta. Ein leið til slíks væri að gera yfirverktaka ábyrga fyrir því að undirverktakar séu með allt sitt á hreinu. Fyrsta skref gæti auðvitað verið að koma slíku fyrir í útboðsskilmálum Framkvæmdasýslu ríkisins, enda er algert lykilatriði (Forseti hringir.) að starfsmanna- og launamál séu á hreinu þar sem og alls staðar.