146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

greining á þensluáhrifum fjárfestinga og framkvæmda.

380. mál
[19:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að varpa þeirri spurningu fram til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hafin sé eða áformuð greining á áhrifum „mismunandi fjárfestinga og framkvæmda í einstökum greinum sem og þensluáhrif á landsbyggðina annars vegar og höfuðborgarsvæðið hins vegar“ sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022 og hversu mikilvægt er að það sé gert.

Það er nefnilega svo að mínu mati að fjármálastefnan og fjármálaáætlunin taka ekki nægilega vel á sjónarmiðum landsbyggðarinnar. Ég tel afar mikilvægt að þau sjónarmið séu höfð í huga þegar við erum að forgangsraða fjárfestingarverkefnum hins opinbera. Það er hægt að stýra framkvæmdum með þeim hætti að þau svæði sem minna hafa fundið fyrir hagvexti og uppgangi efnahagslífsins njóti betur. Víða hefur það nefnilega verið þannig að samdráttur hefur verið eða jafnvel um stöðnun að ræða.

Við getum stýrt framkvæmdum hjá t.d. opinberum hlutafélögum að einhverju leyti af því að þau vega mjög þungt í stóra samhenginu. Núna stöndum við frammi fyrir mjög stórum framkvæmdum á næstunni sem eru nánast einvörðungu á suðvesturhorninu, þ.e. byggingu nýs Landspítala og viðamikilli stækkun á Keflavíkurflugvelli, hvort tveggja mjög nauðsynlegt. En við verðum að huga að því líka hvað við getum gert annars staðar sem hefur kannski minni áhrif, við getum jafnvel fengið betri tilboð í framkvæmdir o.s.frv.

Það er þannig að fólk um land allt er að búa sér til atvinnu, t.d. til sveita og í minni sveitarfélögum sem glímir jafnvel við lélegar samgöngur, ekki er þriggja fasa rafmagn o.s.frv., þar sem litlir fjármunir eru settir í vegakerfi, hafnarmál og flugvelli á tímabili fjármálaáætlunarinnar sem við fjöllum um núna, í kringum 5 milljarðar á ári sem er u.þ.b. það sama og við í fjárlaganefnd sáum okkur knúin til að bæta við í desember til að bregðast við sárustu þörfinni. Því er alveg ljóst að það þarf að gera betur.

Það þarf að skoða mjög gaumgæfilega hvort ekki sé rétt til að vega upp á móti þenslunni á stórhöfuðborgarsvæðinu að fara í verulegar fjárfestingar úti á landi þar sem fólk finnur kannski ekki almennt fyrir þenslu eða mjög miklum hagvexti.

Mig langar líka að biðja hæstv. ráðherra að skýra ögn fyrir mér það sem fjármálaráð gerir athugasemdir við og segir að mikill samdráttur sé í fjárfestingum milli 2017 og 2018 sem er óútskýrður að mati ráðsins.

Við Vinstri græn höfum talið að þessi stefna sé of aðhaldssöm af því að ekki eru gerðar neinar sérstakar atlögur að því að auka tekjur að neinu marki til að standa straum af þeirri innviðauppbyggingu sem við höfum svo ítrekað rætt og rekstur ríkisins er í járnum (Forseti hringir.) þegar upp er staðið.