146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla líka aðeins að fjalla um dag umhverfisins sem er í dag og vekja athygli á átaki Landverndar, Hreinsum Ísland, sem hefst í dag og lýkur 7. maí, eða öllu heldur stendur átakið yfir þann tíma og lýkur náttúrlega aldrei. Áherslan núna er á plastmengun í hafi og þar er auðvitað verið að kalla eftir því að sem flestir komi að því að hreinsa strendurnar okkar. Hægt er að skipuleggja eigin strandhreinsun með því að fara inn á vefinn hreinsumisland.is og fá þar góð ráð. Þessu átaki verður hleypt af stokkunum við ströndina við Sjálandsskóla í Garðabæ í dag þar sem nemendur Sjálandsskóla ætla að vekja athygli á plastmenguninni, m.a. með því að fara út á sjó á kajökum og ætla að draga plastskrímsli í sjónum að landi.

Niðurstöður nýrra rannsókna benda til þess að það sé miklu meira magn af plasti í höfunum en við höfum nokkru sinni gert okkur grein fyrir og telja vísindamenn að það sé verulega vanmetið um allt að 80%. Lavers, sem er með þessa rannsókn, segir að út frá ströndum Ástralíu bendi allt til þess að um 75% af öllu rusli á ströndum landsins sé plast. Af þessu tilefni held ég að við Íslendingar þurfum að velta fyrir okkur hvort við viljum taka frumkvæði og feta í fótspor t.d. Frakka og banna mikið af einnota plasti.

Í dag hefst líka sýning í grasagarðinum þar sem 70 nemendur í 5. bekk Laugarnesskóla standa fyrir sýningu á listrænum afrakstri þriggja daga rannsóknarsmiðju sem þeir áttu í samvinnu við listgreinakennara í Listaháskóla Íslands þar sem ætlunin er að vekja athygli á þeim áhrifum sem hver og einn getur haft og hefur á umhverfi sitt og náttúru. Ég held að sem flestir ættu að líta við þar og sjá hvernig börnin okkar sjá umhverfið og hvernig þau sjá færi á því að hreinsa það og gera það betra.