146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið minnst á að nú eru rúmlega 100 dagar liðnir frá því að þessi stjórn tók til starfa. Af því tilefni langar mig til þess að hafa nokkur orð um þá vanvirðingu sem mér þykir ráðherrar hafa sýnt þingi og þjóð og byrja á því að vitna í 49. gr. þingskapalaga Alþingis. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi, þingnefndir og einstakir alþingismenn hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Eftirlitshlutverk Alþingis snýr að ráðherrum sem bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum …“

Þessum eftirlitsstörfum höfum við þingmenn í þessum sal oft og tíðum átt afskaplega erfitt með að sinna. Ég vil nefna eitt dæmi um slíkt. Í byrjun janúar móaðist hæstv. ráðherra, Bjarni Benediktsson, sem þá var fjármála- og efnahagsráðherra, við að koma á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að ræða skýrslu um aflandseignir. Í lok mars afboðaði hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sig á þingfund án nokkurra skýringa. Þessi fjarvera var þá sérstaklega bagaleg í ljósi þeirra aðstæðna sem þá voru uppi. Þá bárust hver stórtíðindin á fætur öðrum af verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ.

Núna síðast lýsi ég eftir heilbrigðisráðherra. Hann virðist vera horfinn þrátt fyrir endurskinsfatnað. Hann er óínáanlegur. Fjölmiðlar, fjórða valdið, ná ekki á honum taki til að krefja hann sagna. Það er óþolandi. Það væri líka ágætt ef hann léti sjá sig í þingsal.