146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:34]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágætisyfirferð hjá hv. þingmanni um það hversu vondur leiðtogi Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja er. Um það er ekki deilt að staðan í Filippseyjum núna er alvarleg. Þetta eru alvarleg mannréttindabrot sem þarna eru framin og þetta eru vond stjórnvöld sem forsetinn fer fyrir.

Höfum samt í huga að á Filippseyjum búa 100 millj. manna. Filippseyjar eru lýðveldi, enn sem komið er a.m.k. Það mátti heyra á ræðu hv. þingmanns að hún væri ósammála því að staðfesta eigi þennan fríverslunarsamning, hv. þingmaður hafnar því. Þá vil ég spyrja: Hvernig kemur það borgurum Filippseyja til góða að hjálpa þeim við að brjóta af sér hlekki þessarar ógnarstjórnar með því að neita borgurunum um eðlileg samskipti, viðskipti á alþjóðavettvangi? Væri ekki nær að beina spjótum að því hvernig stjórnvöld geta átt samtal við stjórnvöld í Filippseyjum, mótmælt þeim mannréttindabrotum sem þarna fara fram og hafa þá jafnframt hagsmuni íbúa í Filippseyjum í fyrirrúmi með von um að þeim takist að brjóta af sér hlekki þessarar ógnarstjórnar?