146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[16:27]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það olli mér töluverðum vonbrigðum í fyrstu að sjá frumvarpið, að við séum enn og aftur að líta til boða og takmarkana, banna, í stað forvarna, að frumvarp líkt og þetta sé fram komið um tól sem ég taldi ekki vera skaðlegt. Ég ákvað því að kynna mér frumvarpið og lesa greinargerðina og velta fyrir mér hvað væri svo skaðlegt við þessar rafrettur sem ég hef ekki gerst svo fræg að prófa sjálf. Það sem kemur fram í greinargerðinni, og ég var talsvert hissa á, er að það skaðlegasta sem kemur fram í þessum ólíku sjónarhornum er að þetta geti rutt brautina til nikótínfíknar. Erum við þá, virðulegi forseti, að takmarka og banna eitthvað af því að það gæti mögulega kannski einhvern tímann leitt til þess að einhver myndi mögulega kannski byrja að reykja?