146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[16:52]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferð hans á frumvarpi því sem við ræðum núna og þakka fyrir að það sé lagt fram. Ég held að allir séu sammála um að það þurfi ramma í kringum þetta nýja fyrirbæri í samfélagi okkar sem ég kýs að kalla rafrettu, og tek undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um að það sé um margt villandi að tala um sígarettur í því samhengi. En þar með verð ég að viðurkenna, hæstv. ráðherra, að hrósinu er svo gott sem lokið. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum við að lesa þetta frumvarp og held að við séum mögulega að fara hér á mis við mjög merkilegt tækifæri til að sporna við sígarettureykingum og fækka sjúkdómum, dauðsföllum og öllu því sem við vitum að fylgir þeim.

Ég varð örlítið hugsi yfir því af hverju væri verið að stíga þau skref sem kosið er að stíga með þessu frumvarpi þar sem sígarettur og rafrettur eru í raun er lagðar að jöfnu á einfaldan hátt, að í rauninni megi bara segja að allt sem eigi við um sígarettur eigi við um rafrettur, og ef maður leyfir sér að tala ekki mjög prúðmannlega; að málið sé dautt. Ég held að það sé mikil synd og skil ekki alveg af hverju sú nálgun var tekin í þessu máli. Ég ætla ekki að brigsla neinum um að vilja ekki vanda til verks eða að ætla ekki að gera vel og hægt sé, en ég viðurkenni að eftirfarandi hvarflar að mér: Hvað veldur því að ekki er reynt að vanda sig örlítið betur til að búa til sérramma um það sérfyrirbæri sem rafretturnar eru? Er það einhvers konar metnaðarleysi? Leti? Ég held það ekki og ég brigsla engum um slíkt. En ég skil ekki af hverju þessi leið er farin.

Ég var líka að velta fyrir mér hvort þetta væri það sem við sjáum stundum í stjórnmálaumræðunni núna, sérstaklega allt það sem varðar lýðheilsu, þar sem við búum í heimi sem er sem betur fer meira upplýstur um hin ýmsu efni sem eru í kringum okkur alla daga og gætu valdið okkur skaða, sem er vel. En er stjórnmálaumræðan orðin svolítið hrædd við þá umræðu? Er það í raun þægilegra og er maður frekar hólpinn og öruggari ef maður heldur sig á nógu öruggu svæði þar sem aldrei sé hægt að kenna neinum stjórnmálamanni um að hafa ekki séð fyrir einhverja hættu? Það býr til ákveðna togstreitu að mínu viti. Ég held að við föllum æ oftar í þá gildru að það sé auðveldara að banna og þurfa ekki að ræða það meir. Hugsanlega er eitthvað hættulegt við eitthvað og þá er auðveldara að vera stjórnmálamaður sem bannar það bara í stað þess að reyna að skoða vandamálið og ræða það eins og það er og tækla það í hlutfalli við hvernig vandamálið gæti litið út.

Ég veit og skil að í grunninn kemur þetta frá Brussel. Það eru angar af þessu frumvarpi sem við höfum mjög lítið um að segja, þar eru reyndar þeir angar sem ég geri minnstar athugasemdir við, lágmarksákvæði um merkingar og slíkt sem eðlilegt er. En það eru aðrir þættir, bæði í frumvarpinu og greinargerðinni. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem töluðu á undan mér og spurðu spurninga og gagnrýndu vissa þversögn t.d. í greinargerð og lögunum sjálfum þar sem annars vegar er talað um að lögunum sé ætlað að sporna við tóbaksreykingum, en hins vegar sé ekkert gert til að fleiri muni kjósa að nýta sér rafrettuna til þess að hætta að reykja. Það er bara sett á sama stað. Svo verður að segjast að rökstuðningurinn um hvað sé hættulegt er í besta falli gagnrýnisverður. Við höfum séð það í umræðunni um þetta mál undanfarna mánuði að hægt er að taka alla angana varðandi skaðsemina og rökræða þá, eins og hefur verið sýnt fram í greinum lækna hérlendis og erlendis. Ég ætla ekki að dvelja lengur við þann þátt málsins hér og nú. Málið á eftir að koma fyrir nefnd í þinglegri meðferð. Þar verður væntanlega farið yfir umsagnir þar sem komið er inn á það.

Burt séð frá því, þrátt fyrir að hægt sé að rökstyðja og rökræða hversu miklum skaða þetta veldur er alveg ljóst, og ég held að allir séu sammála um það að þetta er ekki 100% skaðlaust. Ég held að enginn haldi því fram. Ég held reyndar að nánast megi segja að ekkert undir sólinni, nema kannski blessað vatnið, sé 100% skaðlaust.

Þá kem ég aftur inn á það með hvernig stjórnmálaumræðan þróast samfara þessari upplýsingu. Auðvitað vitum við miklu meira um af hverju okkur stafar hætta. Það er gott. En í hvaða stöðu setur það okkur? Ef maður leyfir sér að hugsa um ýmislegt í okkar ágæta samfélagi sem við vitum að er hættulegt en er orðið partur af samfélaginu, myndum eflaust ekki leyfa það ef það kæmi fram núna, t.d. eins og að við treystum öðru fólki til að keyra bíl. Það er í raun ótrúlega áhugaverð samfélagsleg ákvörðun ef maður leyfir sér að kafa djúpt ofan í það. Og hér er ég ekki að tala fyrir því að fyrst við leyfum eitthvað í samfélaginu eigi að leyfa allt. Auðvitað græðum við á að við vitum meira í dag en í gær. En í þessu máli er það svolítið áhugavert að það er ekki eins og við séum að ræða hvort eitthvað sem er t.d. jafn skaðlegt sígarettum eigi að fá að vera hér í sölu með sömu takmörkunum og sígarettur. Við erum að tala um vöru sem er alla vega, að því sem ég hef lesið mér til um, 95% skaðminni en sígarettur og hjálpar fólki við að hætta að reykja sígarettur, sem eru stórhættulegar. Við erum ekki einu sinni í þeirri stöðu að ræða hvort við eigum að leyfa eitthvað fyrst annað sé til. Við ræðum hvort við eigum að gera það auðveldara að þessi vara sé notuð, sem er svo miklu skárri en sígarettur þótt hún sé ekki fullkomin frekar en nokkuð annað. Þarna finnst mér metnaðarleysið í frumvarpinu sýna sig. Við eigum að geta búið til ramma sem heldur utan um þessa vöru með öllum kostum hennar og göllum, en ekki sígarettur.

Þessi vara og sígarettur eiga tvennt sameiginlegt: Nikótín og einhvers konar útblástur. Nánast ekkert annað. Eins og áður hefur verið komið inn á varðandi nikótíntyggjó og annað: Ef um væri að ræða eitthvað allt annað en það að að blása frá sér reyk, væri þá umræðan hér allt öðruvísi? Örugglega. En hvað erum við þá að tala um? Erum við að tala um að þar sem notkun rafrettna svipar til reykinga réttlæti það allar reglur sem við setjum hér og að ríkisvaldið hafi sambærilegar reglur þótt við vitum að rafretta sé miklu skárri vara sem bjargar að öllum líkindum mannslífum? Þarna held ég að við séum að fara á mis við stórkostlegt tækifæri. Þetta er í fyrsta skipti á okkar tímum þar sem við getum valið um hvort við ætlum að horfa á þetta eina prósent sem gæti verið slæmt við rafrettur, og er það eflaust eins og allt, og gera þá ekkert til að sporna við reykingum, sem við vitum allt um hvað eru hættulegar. Eða ætlum við að þora að búa til nýjan ramma og mæta nýjum heimi? Mig langar pínulítið til að við gerum það. Og ég held að við getum það. Ég held að við ættum að vera opin fyrir því í þeirri þinglegu meðferð sem fram undan er að fara ekki á mis við það tækifæri.

Ég hef aðeins talað um skaðsemina gagnvart þeim sem neytir vörunnar. Svo er það auðvitað hitt, réttindi þeirra sem neysla annarra hefur áhrif á, þ.e. óbeint „veip“, eða eitthvað svoleiðis. Þá stangast rannsóknir á, sem við förum kannski betur yfir í þinglegri meðferð málsins. Ég ætla ekki að efast um það, burt séð frá því að ekki liggur mikið fyrir um skaðsemi þessarar vatnsgufu, en við gefum okkur að hún sé örlítil. Stöldrum við það að hún getur valdið fólki óþægindum. Gefum okkur að það sé ekki stórkostlega hættulegt, engan veginn miðað við hverju við verðum fyrir í umhverfi okkar úti á götu og alls staðar alla daga, en þetta er samt óþægilegt. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Það er mjög óþægilegt að verða fyrir óþægindum. Það segir sig sjálft. Það er sjálfsagt að taka tillit til þess. Það hljómar kannski hortugt að segja það en ansi margt í samfélagi manna er óþægilegt. Það eru alls konar hlutir sem valda manni óþægindum. Fólk gerir alls konar hluti sem valda manni óþægindum. Ég er hugsi yfir því. Af hverju reynum við ekki að mæta þessum óþægindum annarra meira frelsismegin en miðstýringarmegin og opna fyrir það, t.d. að sveitarfélögin megi ákveða hvernig þau vilja hafa þetta? Ég tala nú ekki um eigendur einhvers konar almannarýma eins og t.d. kaffihúsa fái að ráða því sjálfir. Eigum við að prófa að opna fyrir að það að við sleppum aðeins tökunum á allri mannlegri hegðun sem mögulega gæti farið í taugarnar á öðru fólki og bara treyst öðrum til að taka sínar ákvarðanir?

Mig langar í því ljósi í blálokin, því að mér finnst það áhugavert í þessu máli og svo mörgum öðrum, að tala um almannarými. Lítum við í raun svo á og erum við komin á þann stað að við teljum að við verðum að setja reglur um öll helstu mannleg samskipti og allt mannlegt umhverfi því að við treystum fólki ekki til að taka tillit hvert til annars? Erum við bara hætt því? Erum við hætt að gera ráð fyrir að mögulega sé hægt að sitja inn á kaffihúsi og segja: Fyrirgefðu, vinur, mér finnst þetta pínu óþægilegt. Værirðu til í að sleppa þessu? Við ræðum það ekki einu sinni. Gerum ekki einu sinni ráð fyrir að fólk geti sýnt tillitssemi sín á milli, haft frelsi til að tala saman og búa sér til sínar eigin leikreglur. Við höldum að við þurfum að búa til allar þessar reglur fyrir það. Það er ofboðslega mikil synd.

Að því sögðu held ég að við getum verið metnaðarfyllri gagnvart þessum reglum, gert betur, til þess að halda skynsamlega utan um þetta nýja fyrirbæri sem getur mögulega verið stórkostlegasta heilbrigðismálið sem við höfum séð í mjög langan tíma, ef við bara gerum það af skynsemi og smá trausti og tillitssemi. Ég held að við ættum að geta það.